Schwarzenegger leiðinlegur leigumorðingi

Haldið ykkur fast! Ný gamanmynd er á leiðinni með Arnold Schwarzenegger í aðalhlutverkinu, en Schwarzenegger hefur leikið í mörgum gamanmyndum í gegnum tíðina, eins og Jingle All the Way, Junior og Kindergarten Cup, svo einhverjar séu nefndar.

arnold

Nýja myndin heitir Why We’re Killing Gunther, en um er að ræða hasargrínmynd sem leikstýrt verður af Saturday Night Live leikaranum Taran Killam, en þetta verður fyrsta mynd hans í fullri lengd sem leikstjóri.

Killam sá sjálfur um handritsskrifin, og mun einnig leika eitt af aðalhlutverkunum, ásamt eiginkonu sinni, leikkonunni Cobie Smulders. Þá koma einnig við sögu þau Bobby Moynihan úr SNL, Paul Brittain (Hotel Transylvania 2), Kumail Nanjiani (Silicon Valley), Randall Park (The Interview) og Ryan Gaul (Identity Thief).

cobie smuldersMyndin fjallar um hóp sérvitra alþjóðlegra leigumorðingja sem fá sig fullsadda á Gunther, besta leigumorðingja í heimi, sem einnig er hrokafullur, sjálfsmiðaður og leiðinlegur, og ákveða því að ráða hann af dögum.  Snilldaráætlun þeirra, breytist hinsvegar fljótt í röð mistaka og vandræðagangs þar sem snillingurinn Gunther er alltaf einu skrefi á undan þeim.

Tökur eiga að hefjast í júní nk.

taram killamKillam hefur leikið í bíómyndum eins og The Heat og 12 Years a Slave. Smulders er best þekkt fyrir leik sinn í sjónvarpsþáttunum vinsælu How I Met Your Mother og fyrir að leika fulltrúann Maria Hill í ýmsum Marvel myndum og sjónvarpsþáttum.

Schwarzenegger lék síðast í Terminator Genisys og uppvakningadramanum Maggie.