Scarlett heimtar fleiri hasaratriði í The Avengers

Leikkonan Scarlett Johansson stendur í ströngu þessa daganna við tökur á stórmyndinni The Avengers, þar sem sumar helstu ofurhetjur kvikmyndanna koma saman. Þar á meðal er persóna hennar úr Iron Man 2, Black Widow.

Fregnir herma að Scarlett sé ekki par sátt með hlutverk sitt í myndinni, en hún vill alls ekki enda sem einhvers konar punt á skjánnum. Hefur hún farið fram á að persóna sín fái fleiri hasaratriði og gefi hinum ofurhetjunum ekkert, en Scarlett er eina kvenkyns hetjan í hinu stórbrotna Avengers-liði.

Sömuleiðis á leikkonan að hafa óskað eftir því að Black Widow myndi ekki enda sem ástkona neinnar hetju í myndinni heldur væri sjálfstæð og sterk persóna upp á eigin spýtur.