Ráðherrann ekki byggður á Sigmundi Davíð

Sjónvarpsþáttaröðin Ráðherrann með Ólafi Darra Ólafssyni í aðalhlutverki er rétt handan við hornið. Þar segir frá forsætisráðherranum Benedikt, sem greinist með geðhvarfasýki og þarf þá aðstoðarmaður hans að leggja bæði stöðugleika ríkisins og einkalíf sitt að veði til þess að halda sjúkdómnum leyndum fyrir þjóðinni.

Leikstjórn er í höndum Nönnu Kristínar Magnúsdóttur og Arnórs Pálma Arnarsonar en handrit skrifuðu Birkir Blær Ingólfsson, Björg Magnúsdóttir og Jónas Margeir Ingólfsson. Með önnur stór hlutverk í þáttunum fara Aníta Briem, Þuríður Blær Jóhannsdóttir og Þorvaldur Davíð Kristjánsson, en þess má geta einnig að þættirnir voru á dögunum tilnefndir til evrópsku ljósvakaverðlaunanna PRIX Europa sem besta leikna sjónvarpsefnið.

Þau Nanna Kristín og Birkir Blær sögðu frá löngu framleiðsluferli í Lestinni á Rás 1 en þetta ferli er loksins á enda þar sem fyrsti þátturinn fer í loftið 20. september á RÚV.

Hugmyndina báru þau Jónas Margeir og Björg Magnúsdóttir fyrst á borð Sagafilm árið 2013 en þá var hún bara ein setning:

„Hvað með að gera þætti um ráðherra sem er að kljást við geðhvörf?“

Forsvarsmenn Sagafilm hvöttu þau til að vinna hugmyndina áfram og þá fengu þau Birki Blæ með sér í skrifin. „Við vorum algjörlega blaut á bak við eyrun og þetta tók heillangan tíma. Við vorum að læra í leiðinni á meðan sagan stækkaði,“ segir Birkir. „En við höfðum rosalega gott fólk í kringum okkur sem var alltaf tilbúið að segja okkur ef við vorum búin að gera eitthvað sem sökkaði.“

Þegar hugmyndin fór fyrst í þróun var Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra Íslands en þau segja að lítið sé hæft í kenningum um að sagan sé byggð á hans valdatíð á einhvern veg. „Eiginlega ekki. Hann var bara nýtekinn við þegar við vorum að byrja. Við frekar lögðum okkur fram við að byggja ekki á stjórnmálamönnum sem voru þá í sviðsljósinu,“ segir Birkir.

Það gerðist jafnvel að þegar þau voru þegar byrjuð að vinna með hugmyndir sem þeim fannst passa inn í dramatíska sögufléttuna fór raunveruleikinn sjálfur í svipaðar áttir svo þau þurftu að sveigja af leið. „Raunveruleikinn var kannski bilaðri en það sem ykkur hafði dottið í hug,“ segir Nanna við Birki og bætir við að handritið spegli þó á margan hátt samtímann, sérstaklega með tilliti til viðhorfa til andlegra kvilla.

„Við erum orðin mjög meðvituð um andleg veikindi og það er mikil umræða í gangi en leyfum við stjórnmálamönnum að vera andlega veikir? Þeim sem eru að passa okkur og eiga að hugsa um okkar hagi, hvar erum við í raun í umburðarlyndinu?““ spyr Nanna. Þetta er á meðal þess sem lagt er upp með að skoða í þáttunum og kafa í, „ef maður getur sagt að sögur séu rannsóknarverkefni.“

Birkir segir að eitt af því sem þau komust að í rannsóknarvinnunni voru þær kenningar um að magnaðir og sjarmerandi leiðtogar og geðsjúkdómar fari oft saman. Nanna fylgdist með höfundunum í rannsóknarvinnunni, sem Ólafur Darri hélt svo áfram þegar hann tók að sér hlutverkið.

„Hann hefur sjálfur haft samband við fólk sem er að kljást við andleg veikindi því við viljum bera virðingu fyrir þessum sjúkdómi,“ segir hún og leggur, líkt og Birkir Blær, áherslu á að geðhvörf séu langt frá því að vera einsleitur sjúkdómur og birtingarmyndir hans séu ólíkar. „En ég get lofað ykkur að þið sjáið Ólaf Darra eins og þið hafið aldrei séð hann áður.“