Point Break endurgerðin komin með leikstjóra

Endurgerð á spennumyndinni Point Break frá árinu 1991, sem var með þeim Keanu Reeves og Patrick Swayze í aðalhlutverkunum, hefur nú verið í undirbúningi í mörg ár. Empire kvikmyndaritið segir frá því á vefsíðu sinni að búið sé að ráða leikstjóra fyrir myndina, en það er maður að nafni Ericson Core, en það er Alcon Entertainment framleiðslufyrirtækið sem hyggst endurgera myndina.

Áður var búið að ráða Kurt Wimmer, handritshöfund Angelina Jolie myndarinnar Salt, til að skrifa handrit.

Core er kvikmyndatökumaður sem hefur unnið við myndir eins og The Fast And The Furious, Payback og Daredevil. Sem leikstjóri þá hefur hann stýrt sjónvarpsþáttum eins og Family Law og Invincible með Mark Wahlberg.

Næsta mynd hans er mafíutryllirinn Fair Trade, sem er í undirbúningi.

Upphaflegu Point Break myndinni var leikstýrt af Kathryn Bigelow, leikstjóra Zero Dark Thirty og Hurt Locker.

Söguþráður upphaflegu Point Break er á þessa leið: Í strandbænum Los Angeles framkvæmir hópur bankaræningja sem kallar sig Fyrrverandi – forsetar, glæpi með grímur af fyrrum forsetum Bandaríkjanna á sér, svo sem Reagan, Carter, Nixon og Johnson. Alríkislögreglan FBI telur að meðlimir glæpaflokksins gætu verið brimbrettamenn og senda hinn unga lögreglufulltrúa Johnny Utah í dulargervi á ströndina til að blanda geði við brimbrettamennina og safna upplýsingum. Utah hittir brimbrettakappann Bodhi og laðast að lífsstíl hans.

Empire segir frá því að endurgerðin hafi þróast út frá hugmyndum um framhaldsmynd, þar sem nýr lögreglufulltrúi væri á hælunum á Bodhi, sem síðast sást á brimbretti við stórhættulegar aðstæður að kljást við stærstu öldu heims.

Samkvæmt empire þá gerist nýja útgáfan af myndinni í heimi jaðaríþrótta og við sögu koma alríkislögreglumenn sem starfa á laun innan glæpahrings.

Nú á bara eftir að ráða leikara, en áætlað er að hefja tökur fyrir lok þessa árs.