23 – Zack Snyder’s Justice League

Hlaðvarpsþátturinn Poppkúltúr hefur áður mikið lagt upp úr því að grandskoða framtíð streymisrisa, stúdíókvikmynda og ekki síst myrku hliðar bransans í vestræna afþreyingarheiminum. Má þar til dæmis nefna erfiða framleiðendur, vafasamar framkomur fólks á setti, fordæmalausar pressur og jafnframt tékklista sem eru til þess eins ætlaðir að selja fleiri merkjavörur. Allt það og meira virðist renna saman í eitt þegar kemur að umræðunni um hið stórmerkilega kúltúrsfrávik sem nefnist Zack Snyder’s Justice League.

Þessi risastóra DC ofurhetjumynd frá árinu 2017, sem óhætt er að kalla dýrustu bíóframleiðslu allra tíma, átti vægast sagt átakanlegan farveg og erfiðari fæðingu sem er eins og beint tekinn úr furðulegum farsa. Aðdáendur og almennir áhorfendur bjuggust við einu en fengu á endanum afbrigði ljótrar samsetningar, furðulegra ákvarðanna, leikstjóraskipta og endurmótun sem kom af stað nördabyltingu sem seint mun gleymast.

Leikstjórinn Zack Snyder hefur lengi þótt umdeildur en eftir að hafa stigið frá eftirvinnslu kvikmyndarinnar vegna fjölskylduharmleiks, var lengi þrasað um hið dullarfulla „Snyder-klipp“ Justice League myndarinnar; hvort slíkt væri til eða eingöngu pípudraumur DC unnenda. Margir hverjir bjuggust aldrei við því að afraksturinn myndi líta dagsins ljós en horfurnar breyttust með stuðningi aðdáenda, leikara myndarinnar og að lokum streymisdagskrá HBO Max.
Þann 18. mars lenti Zack Snyder’s Justice League á streymisveituna og markaði glænýjan kafla í stærri umræðunni um leikstjóraútgáfur og samanburð við áður útgefna vöru.

Sigurjón og Tómas rúlla í gegnum stórmerkilegu framleiðslusögu nýju (en þó ‘upprunalegu’) myndarinnar, þær ótrúlegu breytingar sem blasa við á milli verka, hvort að meira þýði endilega betra og vissulega hvort útkoman sé fátt meira en einfaldlega merkilegt barn síns tíma, fjögurra klukkustunda tímasóun eða bara hin fínasta skemmtun.
Þess ber að geta að þátturinn inniheldur enga spilla um Zack Snyder’s Justice League fram að mínútumarki 55:40. Eftir það tekur við ítarlegra spoiler-spjall.

Njótið heil og hálf.