Hvað er kvikmyndagagnrýnandi?Fyrir utan þennan?

Ókei, þetta er frekar opin spurning (nánast ólöglega opin) en ég er einfaldlega að fara eftir eigin áliti hér. Þessi spurning hefur verið hangandi heillengi í höfði mínu síðustu ár, en þó aldrei nógu lengi til að pæla frekar í hugtakinu og hvað skilgreinir það að vera gagnrýnandi. ég fór ekki raunverulega að pæla í þessu fyrr en ég las þetta ‘blessaða’ komment hjá undirsíðu Bíófíkilsins. Annar leikstjóri myndarinnar Hrafnar, sóleyjar og myrra felur þar ekki biturleika sinn mjög vel.

„Getur maður bara ákveðið að maður hafi meira vit á bíómyndum næsti gaur án þess að hafa gert nokkuð, lært nokkuð. Það mætti kanski segja að það sé eftirspurn eftir þér. En þegar þú lítur spegil og horfir í augun á engum spyrðu aldrei hvern fjandann er ég að vilja upp á dekk.
Kveðjur Helgi Sverrisson“

Ég ætla ekki að setja út á þessi ummæli því það er núþegar búið að gera það, plús þetta er sígilt dæmi um að geta ekki tekið gagnrýni. Hvað er gagnrýnandi í raun, hverja tel ég vera gagnrýnendur og hvaða bakgrunnur er nauðsynlegur til þess að teljast vera gagnrýnandi?

Sem dæmi tel ég mig sjálfan ekki vera gagnrýnanda, né hef ég ekki nokkurn tíman talið mig vera gagnrýnanda. Ég er einfaldlega mikill aðdáandi kvikmynda sem notar glápsbloggið til að segja mitt álit á því sem ég hef séð nýlega og langar að deila með öðrum ef það er hin besta skemmtun. Ég væri t.d. mjög smeykur um að skrifa fagmannlega um sígildar kvikmyndir eða efni sem hefur mikið vægi í kvikmyndasögunni því ég vil aldrei þykjast vita meira en ég veit í raun. Ég einfaldlega elska kvikmyndir nógu mikið til að hafa skrifað aktívt um þær fyrir fjórar vefsíður (að þessari meðtalinni).

Það fyndna er að í dag vilja ALLIR kvikmyndaaðdáendur kalla sig gagnrýnendur ef þeir skrifa um kvikmyndir og ég ætla ekki að banna þeim það, alls ekki. Fjandakornið, það er jafnvel til heil vefsíða af amatör-vídjórýnendum sem kalla sig gagnrýnendur þó ég tek ekki mikið mark á þeim né skilgreiningu þeirra á orðinu. En hey, einhverstaðar þarf fólk að byrja, þó ég bið ykkur einlægt um að fylgja ekki fordæmi TGWTG-fólksins.

Hvað hefur þetta að gera með álit á myndinni?

Undirbúið ykkur fyrir óréttlátan samanburð: Munurinn á milli t.d. Nostalgia Critic og núverandi kvikmyndagagnrýnanda Fréttablaðsins, Snobbhænsninu, er sá að einn þeirra hefur gamansemi sem aðalmarkmið sitt þegar mynd er tækluð, en hinn hefur gagnrýni sem aðalmarkmið. Báðir hafa stúderað kvikmyndir að vissu marki og jafnvel geta þeir báðir fært fjári góð rök fyrir máli sínu, en ég tek Snobbhænsnið langt fram yfir Nostalgia Critic því hann er ekki að sóa tíma mínum inn á milli með gamansemi sem tengist rýninni lauslega. Ég meðtek ekki gagnrýni sem nýjasta ritverk Terry Pratchett, ég meðtek hana sem raunsæjan og rökstuddan dóm á kvikmynd og hvort hún sé þess virði að sjá eða ekki. Gagnrýni í dag er jafnvel svo mikilvæg að vefsíðan Rottentomatoes.com er tileinkuð samansafni af því sem gagnrýnendur segja um kvikmynd að hverju sinni – það er ekki hægt að sjá allt sem kemur út, þannig vandað val skiptir oft höfuðmáli svo þú sért ekki óvart að sóa tímanum þínum í nýjasta Twilight-lega táningaræðið.

Einnig er annar mikilvægur munur á Snobbhænsninu og t.d. rýnendum Empire (þó ég tek mikið mark á þeim einnig), hann er sá að SH er heiðarlegur varðandi skoðanir sínar á þeim ræmum sem hann sér. Hann veit hvað hann vill og dæmir eftir hvort það sem hann sá tókst að kitla HANN almennilega. Engin sér sömu myndina með eins augum og hugarfari þannig oft er gott að vita hver sé á bak við hverja rýni. Það hjálpar manni einnig að finna gagnrýnanda sem hentar sér best því hann er með líkasta smekkinn eða ‘agendu’ sem þú tengir þig við, þannig byrjaði ég t.d. að lesa rýnina hjá Bíófíklinum.

Þið fattið.

Ef ég ætti að skilgreina gagnrýnanda í minni bók utan þess sem ég minntist á þá tel ég þig vera gagnrýnanda ef þú telur þig sjálfan vera það og getur rökstudd af hverju fyrir öðrum, semsagt hvað gerir þig hæfari sem gagnrýnanda en einhvern blaðamann hjá mogganum með nánast enga þekkingu á kvikmyndum utan akademíska skilgreiningu miðilsins. Gagnrýnandi getur rökstudd skoðun sína á kvikmynd, afsakað sig fagmannlega þegar hann getur það ekki, og þekkir til miðilsins sem aðdáandi frekar en söguprófessor. Gagnrýnandi þarf einnig að hafa sína eigin rödd en þó alltaf haldið sig við viðfangsefnið að hverju sinni, jafnvel ef myndin vekur núll áhuga. Starfandi gagnrýnandi fer einnig á flest allt sem er í sýningu.

Ég ætla einnig að taka það fram að gagnrýnandi er alls ekki endastöð fyrir lærða kvikmyndagerðamenn sem hafa ekki unnið í bransanum í ákveðin tíma. Það er útdauð klisja og oft eru kvikmyndagerðarmenn hinir bestu kauðar/kvensur til að dæma kvikmyndir í réttu ljósi. Það er aldrei of seint að taka upp kvikmyndagerð sem djobb, og kvikmyndagagnrýni er einfaldlega önnur hlið á kvikmyndagerðardjobbinu. Eitt starfið fóðrar hitt að ákveðnu marki og koll af kolli.

Og ef ekkert af þessu virkar fyrir þig, þá er alltaf hægt að heyra mat Eberts (og Siskels), heimsins besta kvikmyndagagnrýnanda (að mínu mati), hvað varðar skilgreiningu og mikilvægi gagnrýnanda.

Sjitt hvað ég vona að þetta hljómi ekki eins og ég sé að tala út um rassgatið á mér.

Upphaflega birt á áhorfsblogginu Gott Gláp þann 15. júní

Hvað skilgreinir kvikmyndagagnrýnanda fyrir ykkur, lesendur? Eigið þið uppáhalds gagnrýnanda eða minnst uppáhalds gagnrýnanda?