Örfréttir vikunnar

Stundum er svo mikið að frétta úr afþreyingarheiminum að það er gjörsamlega ómögulegt að troða heilu fréttunum fyrir. Þess vegna hjálpar það einstaka sinnum að segja frá því nýjasta í örfréttum. Kíkjum á hvað er nýtt:

 

 

Mjög merkilegar fréttir um The Dark Knight Rises voru að berast. Á þessari síðu útksýrir Christopher Nolan af hverju Bane er með þessa grímu sína, hvernig hún virkar og af hverju hann var valinn sem helsti skúrkur myndarinnar. Það sem mun vekja athygli flestra í þessari frétt er þegar leikstjórinn segir hve mörgum árum þessi mynd gerist eftir síðustu mynd.

Twilight-myndin Breaking Dawn: Part 1 malaði gull í miðasölu vestanhafs um helgina og opnaði með $139 milljónir. Á Íslandi gekk henni ekki alveg eins vel og margir bjuggust við. Myndin opnaði með rúmlega 6 þúsund manna aðsókn, en til samanburðar þá opnaði Eclipse með rúmlega 8 þúsund manna aðsókn. Ætli það séu fleiri farnir að bíða eftir DVD-inu eða eru þeir bara dottnir út úr sögunni?
 Samkvæmt vefsíðunni Dark Horizons þykir George Clooney alls ekki ólíklegur kandídat sem Steve Jobs í væntanlegri „biopic“ mynd um Eplamanninn.

Hin væntanlega Muppets-mynd með Jason Segel er sögð vera ein af skemmtilegri myndum ársins samkvæmt gagnrýnendum og ýmsum öðrum sem hafa þegar séð hana.

Ethan Hawke segist vera „hugsanlega“ að undirbúa glænýja „Before“ mynd með Richard Linklater og Julie Delpy. Fyrir þá sem ekki vita þá gerðu þau þrjú saman rómantísku myndirnar Before Sunrise (1995) og Before Sunset (2004). Báðar tvær eru í geysilega miklu uppáhaldi hjá gagnrýnendum og undirrituðum fréttamanni (einhver annar??). Þær eru alveg ómótstæðilegar.