Ördómar frá RIFF: Hórur, Plómur og Flekar

RIFF stoppar ekki (fyrr en á sunnudag) og umfjöllunin okkar ekki heldur. Hér kemur minn annar skammtur af ördómum frá RIFF, af fjórum mjög ólíkum myndum.

Borða sofa deyja – Äta sova dö
Sænsk mynd í raunsæisstíl um stelpu um tvítugt sem fædd er í Svartfjallalandi en hefur búið í Svíþjóð svo lengi sem hún man eftir sér. Hún vinnur í verksmiðju við grænmetispökkun í Skánska smábænum sem hún býr í og sér þannig fyrir veikum föður sínum. Hún kann vel við þetta líf, hún er góð í því sem hún gerir, og vinnur með öllum sem hún þekkir. Þægilegri tilveru hennar er ógnað þegar fyrirtækið hefur niðurskurð, og pabba hennar er á sama tíma neitað um sjúkratryggingu af sænska ríkinu. Hin óreynda Nermina Lukac ber myndina á herðum sínum, og tryggir að þrátt fyrir að hún dragist örlítið á langinn leiðist manni aldrei.

 

 

Kjúklingur með Plómum – Poulet aux Prunes
Þetta er sennilega mín uppáhaldsmynd á hátíðinni, og sú eina sem ég hugsaði strax að ég þyrfti að sjá aftur. Ég vissi það svo sem fyrir fram, held mikið upp á fyrri mynd þeirra Marjane Satrapi og Vincent Paronnaud, Persepolis, og hafði einnig gaman af teiknimyndasögu Satrapi sem þessi mynd byggir á. Um er að ræða tragíska ástarsögu, sagða í minningarbrotum deyjandi manns. Sögusviðið er Teheran um 1958, en leikararnir tala frönsku og sögusviðið sækir jafn meira í ímyndunarafl leikstjóranna en í raunveruleikann. Þessi á eftir að rata upp í DVD hilluna mína.

 

 

Kon-Tiki
Önnur mynd sem ég hafði talsverðar væntingar fyrir, í þetta skiptið stóðust þær ekki alveg.  Tæknibrellur, leikur og útlit myndarinnar fagmannlega gert, en vandamál myndarinnar fannst mér liggja á handritsstigi. Of grunnt fannst mér farið í ástæður þessa mikla leiðangurs Thor Heyerdahl, ásamt hlutverkum og markmiðum hinna leiðangursmannanna. Hvernig fengu þeir vatn? Hvernig veiddu þeir fisk? Hvað með allar vísindalegu athuganirnar sem þeir gerðu?  Í stað alls þess sýnir myndin fimm menn að láta sér leiðast á fleka í 100 daga, á milli þess að rífast aðeins og lenda í svaðilförum. Svaðilfarirnar lúkka samt vissulega vel. Alls ekki léleg kvikmynd, en ekki sú besta sem hægt hefði verið hægt að gera um þessa mögnuðu för.

 

Fokkens Hórurnar – Meet the Fokkens
Þessi heimildamynd tekur hina svokölluðu „fly-on-the-wall“ nálgun við það að fylgjast með hinum mögnuðu tvíburasystrum Louise og Martine Fokkens, sem starfað hafa sem vændiskonur í rauða hverfinu í Amsterdam í yfir 40 ár. Erfið lífssaga þeirra er svo sannarlega áhugavert umfjöllunarefni, og magnað er að sjá lífsgleðina sem þær búa yfir þrátt fyrir að viðurkenna fúslega að þær hefðu viljað feta aðra braut í lífinu. Hinsvegar fannst mér myndin aldrei komast almennilega til botns í hvernig hún nálgaðist umfjöllunarefnið. Til dæmis náði ég aldrei að þekkja þær í sundur. Hvor var það sem var lamin af eiginmanninum og þvinguð í vændi? Af hverju byrjaði svo hin systirin líka? Önnur þeirra er hætt vændi af heilsufarsástæðum, en hin segist ekki hafa efni á því. Hvernig passar það? Þrátt fyrir að skarta heillandi aðalpersónum nær myndin hvorki að varpa nógu ljósi á ævi þeirra né stöðu Hollenska vændisiðnaðarins.

Hvað eruð þið búin að sjá?

Stikk: