Önnur Murray mynd endurgerð

whataboutbob bobbbbbNBC sjónvarpsstöðin hefur pantað prufuþátt ( pilot ) af sjónvarpsþáttunum What About Barb? sem byggðir verða á Bill Murray og Frank Oz kvikmyndinni What About Bob? frá árinu 1991.

Þetta er þá í annað sinn á stuttum tíma sem gömul Bill Murray mynd er endurgerð með einhverjum hætti, en í fyrra var ný Ghostbuster mynd frumsýnd, þar sem konur léku hlutverk allra draugabananna, sem voru karlar í fyrstu myndinni.

Í What About Bob? leikur Murray Bob Wiley sem er taugaveiklaður og stjórnsamur maður sem leggur það í vana sinn að gerast mjög uppáþrengjandi við geðlæknana sem hann gengur til. Sá síðasti, sem gat ekki lynt við hann, sendir hann til Leo Marvin. Eftir aðeins einn tíma hjá honum, þá hrífst Bob mjög af Dr. Marvin. En illu heilli þá er læknirinn á leið í sumarfrí með fjölskyldunni, sem verður til þess að Bob fær næstum taugaáfall. Hann hringir stöðugt í lækninn og heimtar að fá að hitta hann, en læknirinn segist alltaf vera í fríi og lokar á Bob. Bob hinsvegar tekst að komast að því hvar læknirinn er í fríi, og fer til hans. Fjölskylda læknisins fer að kunna vel við Bob, en lækninum finnst hann vera uppáþrengjandi. Og það er sama hvað hann gerir, Bob hreinlega fer ekki í burtu, og öllum finnst það vera Leo sem er vondi kallinn….

Í sjónvarpsþættinum verður sami háttur hafður á og í Ghostbusters, skipt verður um kyn á aðalleikurunum, og bæði Bob og Leo verða konur.

What About Bob? sló í gegn á sínum tíma, og þénaði 64 milljónir dala í Bandaríkjunum, en kostaði mun minna, eða 39 milljónir dala.