Nýr Jack Ryan slæst við hryðjuverkamenn

Amazon streymisveitan frumsýndi nú um helgina fyrstu stiklu úr nýrri sjónvarpsþáttaröð sem fjallar um Jack Ryan, söguhetju úr bókum spennusagnahöfundarins Tom Clancy.

John Krasinski fer með titilhlutverkið í þáttunum, en Ryan er ungur og upprennandi greinandi innan bandarísku leyniþjónustunnar, CIA, sem leiðist inn hættulegt verkefni  í fyrsta skipti. Ryan sér mynstur í samskiptum hryðjuverkamanna og í hönd fer stórhættulegur hildarleikur, þar sem hryðjuverk geta valdið meiriháttar eyðileggingu á heimsvísu.

Þegar hafa verið gerðar nokkrar bíómyndir um sömu söguhetju, myndir eins og The Hunt for Red October, Patriot Games og nú síðast Shadow Recruit frá árinu 2014.

Þættirnir koma á streymisþjónustuna Amazon Prime á næsta ári.