Nýnasisti snýr við blaðinu

Hann fékk Óskarsverðlaun fyrr á þessu ári fyrir stuttmyndina Skin, en áður en það gerðist þá heimsfrumsýndi leikstjórinn Guy Nattiv kvikmynd í fullri lengd með sama heiti ( sem menn eru ekki sammála um hvort séu tengdar ) á kvikmyndahátíðinni í Toronto í Kanada í fyrrahaust.

Vel skreyttur líkami.

Myndin sem er með þeim Billy Elliott og Rocketman leikaranum Jamie Bell og Danielle Macdonald, Vera Farmiga og Bill Camp í aðalhlutverkum, segir frá nýnasista sem tekst á við skömmina yfir þeim aðgerðum sem hann hefur tekið þátt í í gegnum tíðina.

Myndin verður frumsýnd í kvikmyndahúsum í Bandaríkjunum í sumar, og fyrsta stiklan er nú komin út.

Gagnrýnandi kvikmyndavefjarins TheFilmStage, Jared Mobarak, sagði um myndina að það sé óþægilegt að horfa upp á það þegar Bryon „Babs“ Widner (Jamie Bell) fylgist með undirbúningnum að því að húðflúrin af honum verði fjarlægð, og hlusta á öskrin í honum þegar aðgerðin hefst, en aðgerðin sé einnig myndlíking fyrir það hvernig maður breiði yfir fortíðina.

Flúrið sé ekki bara eitthvað út í bláinn, heldur leiðarvísir að dekksta hluta sálar hans, og endurspegli reiði hans og viðhorf til hluta. Líkamsskrautið er merki um eignarhald Viking foringjans ( Bill Camp ) á honum, mannsins sem bjargaði lífi hans áður en hann stal því á ný og breytti honum í skrímsli.

Söguþráðurinn er í aðalatriðum þessi: Eftir erfiða barnæsku lendir Bryon í klónum á kynþáttahataragengi, en hann reynir síðar að sleppa og hefja nýtt líf. Hann veltir á sama tíma fyrir sér hvort hann geti breitt yfir fortíðina og fengið fyrirgefningu.

Kíktu á stikluna hér fyrir neðan: