Ný Naked Gun með Ed Helms sem Frank Drebin

ed helmsHinar goðsagnakenndu gamanmyndir Naked Gun eru á leið í endurvinnslu, með Ed Helms í hlutverki rannsóknarlögreglumannsins óborganlega Frank Drebin sem Leslie Nielsen lék svo eftirminnilega í upprunalegu myndunum þremur.

Thomas Lennon og R. Ben Garant, sem skrifuðu Night at the Museum, munu sjá um handritsskrifin.

Helms er best þekktur fyrir leik sinn í The Hangover þríleiknum og We’re the Millers. Nýjasta mynd hans heitir Stretch en þar leikur hann á móti Chris Pine og Patrick Wilson. Einnig leikur hann í rómantísku gamanmyndinni They Came Together, sem frumsýnd verður á Sundance kvikmyndahátíðinni í janúar nk. Mótleikarar hans þar eru Paul Rudd og Amy Poehler.

The Naked Gun: From the Files of Police Squad! var frumsýnd árið 1988 en þar reyndi Frank Drebin að koma í veg fyrir tilræði við Elísabetu aðra Englandsdrottningu.

Hinar myndirnar sem fylgdu á eftir heita The Naked Gun 2½: The Smell of Fear og Naked Gun 33⅓: The Final Insult og eru frá árinum 1991 og 1994.

Myndirnar eru byggðar á gamanþáttunum Police Squad! frá árinu 1982 eftir Jim Abrahams, David Zucker og Jerry Zucker.