Nolte verður rokkstjarna með Alzheimer

Nick Nolte í söngvamynd! Nei, bíddu nú hægur … jú, þú last rétt. Strigabassinn Nick Nolte hefur verið ráðinn ásamt Glenn Close til að leika í myndinni Always On My Mind, sem er dramamynd með tónlistar- og söngívafi.

Leikstjóri verður Chris D’Arienzo.

Myndin er byggð á handriti leikstjórans sjálfs, og fjallar um aldraða rokkstjörnu, sem Nolte leikur, sem er greindur með Alzheimer hrörnunarsjúkdóminn. Rokkarinn getur því ekki starfað eins og hann er vanur og nú reynir á eiginkonu hans, sem Glenn Close leikur. Hún þarf nú ekki einungis að sjá um mann sinn heldur taka til í rokkstjörnulíferni hans, og púsla saman ýmsu sem þar hefur gengið á.

D’Arienzo leikstýrði síðast gamanmyndinni Barry Munday, með þeim Patrick Wilson og Judy Greer, en er líklega þekktastur fyrir störf sín á leiksviði í Broadway, en hann samdi rokksöngleikinn Rock of Ages, sem var síðan gerður að bíómynd með Tom Cruise í aðalhlutverki og var sýnd í bíó síðasta sumar. 

Nick Nolte hefur átt annríkt við ýmis verkefni upp á síðkastið. Hann sést næst í bíó í mynd Ruben Fleischer, Gangster Squad, og einnig í spennumyndinni Parker, en þær koma báðar út í janúar.

Glenn Close, sem tilnefnd var til Óskarsverðlauna í fyrra fyrir Albert Nobbs, hefur verið að leika í sjónvarpsþáttunum Damages sl. fimm ár, og mun næst leika aðalhlutverk í The Grace That Keeps This World, en þar leika með henni James Franco og Brit Marling.