Tían í vikufríi

Eftirfarandi er opið bréf frá undirrituðum til notenda Kvikmyndir.is. Njóið heil:


Ég vildi byrja á því að þakka fyrir stuðninginn á bakvið þennan litla dálk sem ég byrjaði á í nóvember hér á vefnum. Tían var upphaflega eitthvað sem ég gerði í hálfgerðu gríni til að koma einhverjum föstum lið af stað um helgar. Oddur – sem er í einhverju teygðu fríi – gerði einmitt mjög svipað alltaf á laugardögum (Svalasta VHS-kápan – mikill söknuður), þannig að ég ákvað að koma með mitt bara til að fylla upp í.

Feedback-ið hefur verið undarlega jákvætt. Nokkrir hafa sent inn tillögur að topp(eða botn)listum og aðrir hafa sent póst og spurt af hverju Tían var ekki núna um helgina (búið að vera vitlaust að gera hjá mér um helgina). Síðan fylgir auðvitað diss í miklu magni, en persónulega finnst mér það gera gott ennþá betra. Það er heldur ekki við öðru að búast þegar maður tjáir skoðanir sínar, og hvað þá á opnum vef.

Annars vildi ég líka minnast á það að Kvikmyndir.is hefur mikið farið stækkandi á undanförnu ári. Notendaheimsóknir hafa stokkið frá cirka 35 þúsund á mánuði til 70 þúsund. Skv. teljari.is er vefurinn kominn í 34. sæti yfir 100 aðsóknarmestu vefsíður landsins. Venjulega vorum við í kringum 40, þannig að menn eru alveg búnir að gera heilan helling fyrir okkur með þessum heimsóknum. Og auðvitað, því betri aðsókn, því meira getum við gert fyrir notendur (forsýningar, boðssýningar, getraunir o.fl.).

Tillögur um hvað mætti gera betur eru alltaf vel þegnar (kvikmyndir@kvikmyndir.is) og sömuleiðis hugmyndir fyrir Tíuna eða aðra fasta liði. Uppástungur fyrir forsýningar (tommi@kvikmyndir.is) er einnig kjörið (en helst engar fráhrindandi myndir aftur – eins og Where the Wild Things Are). Á síðasta ári vorum við með 4 forsýningar og 5 boðssýningar. Skulum endilega hafa þær fleiri í ár.*

Fyrir hönd Kvikmyndir.is vil ég enn og aftur þakka notendum fyrir heimsóknirnar. Við lofum að dekra meira við ykkur á þessu ári, og ég mun gera mitt besta til að angra aðra með skoðunum mínum á næstunni.

Kv.
Tommi

*Við höfum að vísu fengið nokkrar hugmyndir frá fólki. Vinsælustu tillögurnar hafa hingað til verið Boondock Saints II og Black Dynamite. Ég get lofað ykkur að það hefur verið reynt en það bara því miður verður ekki að veruleika þar sem þær eru ekki á leiðinni í bíó, eins mikið og ég hefði dýrkað að fá að sína BD. Kannski við fáum að gefa einhver DVD eintök þegar líður að því.