Tían: Kvikmyndir byggðar á tölvuleik

Vegna þess að það er föstudagur er tilvalið að gera eitthvað talsvert skemmtilegra en maður gerir á venjulegum virkum degi, þess vegna ætla ég að byrja á því að vera með vikulega Topp(eða botn)lista á þeim dögum, þar sem ég deili skoðunum mínum og skora á notendur til að gera hið sama á spjallsvæðinu.

Ég ætla að byrja á mjög léttum og frekar dæmigerðum lista. Ástæðan fyrir því að hann er dæmigerður er sú að það eru bara ekki til það margar myndir af þessari tegund og því sér maður oftast sömu titlana þegar maður skoðar svipaða lista. En engu að síður hef ég ýmislegt að segja og því er um að gera að telja upp:


.:10 VERSTU MYNDIR SEM BYGGÐAR ERU Á TÖLVULEIK:.

(Ath. Ég hef kosið að telja ekki upp neina einustu Uwe Boll-mynd. Tvær ástæður: Þær teljast varla sem kvikmyndir í mínum huga, og ef ég myndi telja þær hér upp væru nánast allar myndirnar hans á þessum lista. Alltof einhæft)


10. HITMAN

(s)Hitman – eins og Empire kallaði hana – gerði fátt gott fyrir trausta aðdáendahópinn sinn, enda ekki skrítið! Myndin er kjánaleg, illa skrifuð svo ekki sé minnst á að það gleymdist algjörlega að troða skemmtanagildinu í hana. Hápunktur myndarinnar var cirka mínútna löng sena þar sem Olga Kurylenko reynir að tæla titilkarakterinn með því að klofa yfir hann og fara úr að ofan, og í kjölfarið gerir hann einmitt það sem flestir karlmenn myndu ekki gera. Frekar kaldhæðnislegt að bæði Agent 47 og Max Payne höfnuðu þessari gellu þegar hún reyndi að fá þá í rúmið. Er hægt að vera svo alvarlegur?


9. TOMB RAIDER: THE CRADLE OF LIFE

Flestir hafa sagt að fyrri myndin sé lélegri, en ég er ósammála því. Það voru a.m.k. nokkrar töff senur í henni. Þessi mynd er bara leiðinleg, punktur! Ég hef sem betur fer ekki horft á hana síðan ég sá hana í bíó á sínum tíma en ég man vel hversu óspennandi og óathyglisverð hún var. Gerard Butler var að vísu ágætur en ekkert meira. Þetta var líka áður en hann varð sá töffari sem hann er í dag. Gleymum því ekki að hann lék einu sinni titilhlutverkið í alveg hræðilegri mynd sem hét Dracula 2000.


8. RESIDENT EVIL

Eins mikið og ég hafði aulalega gaman af Mortal Kombat þá er seinni tölvuleikjamyndin hans Pauls W.S. Anderson ekki nálægt því að vera eins fjörug. Ég hef reynt að horfa á Resident Evil aftur síðan ég sá hana fyrst en hætti alltaf eftir „laser-senuna,“ sem er eina góða atriðið í allri myndinni. Hún stelur svo miklu frá Aliens að það er ekki eðlilegt. Uppbyggingin er nánast alveg eins og sumar senur eru beint teknar úr henni. Auk þess held ég að ég hafi aldrei séð eins óspennandi „zombie-hasarmynd“ á ævi minni, og það er mikið sagt.

 
7. WING COMMANDER

Þeir sem sáu ekki þessa mynd vita varla hvaða mynd þetta er og þeir sem gerðu þau mistök að horfa á hana vilja helst gleyma henni. Handritið er ekta sori og bardagarnir í geimnum eru hrottalega leiðinlegir. Freddie Prinze Jr. hefur greinilega ætlað að sýna með þessari mynd að hann gæti verið einhvers konar hasarstjarna. Endilega skoðið hversu margar hasarmyndir hann hefur gert síðan.

6. STREET FIGHTER

Hvað er hægt að segja um þessi ósköp sem hefur ekki verið sagt áður? Eiginlega ekkert. Ég hef að vísu heyrt að mörgum finnist gaman að horfa á hana vegna þess að hún er svo léleg, en persónulega finnst mér bara dapurt að horfa á hana. Hasarinn er leiðinlegur, Van Damme er (kemur á óvart) hallærislegur og Raul Julia átti miklu betra skilið heldur en þetta.

5. POKÉMON: THE FIRST MOVIE

Þessi mynd er auðvitað byggð á teiknimyndaseríu, en teiknimyndaserían er byggð á tölvuleikjum svo hún telst alveg með. Það er hvort eð er aldrei slæmur tími til að tala um hvað þessi ofbeldisfulla, kexruglaða og móralslausa teiknimynd er mikil skítahrúga. Það pirrar mig reyndar rosalega mikið þegar maður horfir á japanskar bíómyndir sem byggðar eru á þáttum/tölvuleikjum hvað þeim er augljóslega skítsama um hlutlausa áhorfendur. Það er ekkert útskýrt í þessari mynd. Ekki neitt! Við eigum bara sjálfkrafa að vita hvað allir gera og hver er hvað. Auk þess er söguþráðurinn svo mikið kjaftæði og endirinn er einhver mesti svindl-endir sem sögur bera af. Ég hef aldrei áður séð teiknimynd sem matreiðir boðskap ofan í áhorfandann og dregur hann síðan til baka. Spes!

4. SUPER MARIO BROS.

Þetta kemur ábyggilega fáum á óvart, enda hroðaleg mynd sem byggð er á einhverjum sýrðasta tölvuleik allra tíma. Hún á voða lítið sameiginlegt með leikjunum. Þetta lítur meira út eins og þriðja flokks afrit af Terry Gilliam-mynd í bland við Judge Dredd og það er vægast sagt léleg tilraun að hún skuli byrja á gamla upphafslaginu sem er beint tekið úr fyrsta leiknum. Þetta er bara óbærileg fantasía sem einkennist mest af vonlausum leik (sérstaklega hjá Dennis Hopper) og tíu sinnum verri húmor.


3. STREET FIGHTER: THE LEGEND OF CHUN-LI

Mikið rétt! Önnur mynd sem notar Street Fighter nafnið og það er erfitt að trúa því að hún sé verri en Van Damme-myndin, en hún er það! Guð minn góður hvað þessi mynd er slæm. Ég skil ekki hvað hefur gerst við Chris Klein heldur. Hann byrjaði vel í Election og American Pie-myndunum en svo fór hann að týnast í ógeði á borð við Rollerball, The Long Weekend og núna þessu! Til gamans má geta að myndin er leikstýrð af sama manninum og gerði Doom, sem greinilega var ekki nógu vond til að komast inná þennan lista.

2. MORTAL KOMBAT: ANNIHALATION

Önnur mynd sem ég vildi óska að væri „svo léleg að hún er skemmtileg,“ en nei, hún er bara sorp í orðsins fyllstu merkingu. Fyrri myndin var talsvert skárri og hún má eiga það að hafa reynt að búa til söguþráð sem náði að gefa slagsmálasenunum einhvern tilgang. Í þessari mynd byrja bara allir að berjast upp úr þurru, þá reglulega og út alla lengdina. Enginn tilgangur með þessum senum nema bara til að fá 12 ára gutta til að hrópa af ánægju. Án djóks, mér líður eins og framleiðendur hafi bara gert þessa mynd fyrir krakka. Leikurinn er ýktari en í Power Rangers-þáttunum og skemmtanagildið leysist fljótt upp um leið og maður fattar að myndin hefur engan áhuga að stefna eitthvert af viti. Botninum er svo náð í slagsmálasenu þegar Scooter-tónlist byrjar að spilast undir.


1. DOUBLE DRAGON

Ég get sagt með fullri samvisku að þetta sé ein versta mynd sem ég hef nokkurn tímann séð. Ég meira að segja hataði hana þegar hún kom fyrst út, og þá var ég 8 ára og á þeim aldri þar sem maður fílar nánast hvað sem er! Það sem er sorglegast við alla myndina er Robert Patrick, sem stuttu áður lék eitthvað það svalasta illmenni síðustu aldar (T-1000 auðvitað, hver annar?). Að horfa á Patrick í sínu Vanilla Ice-dulargervi er bæði vandræðalegt og niðurlægjandi, sem gildir reyndar um alla myndina. Slagsmálaatriðin eru öll slæm, handritið álíka skemmtilegt og rótfylling og hver einasti leikari hryllilega pirrandi. Það er einfaldara að segja bara að það er nákvæmlega EKKERT gott við þessa mynd!

Hverjar eru verstu „tölvuleikjamyndirnar“ að þínu mati?