Missir, sorg og hefnd

Eftir dauða T’Challa konungs þurfa Ramonda drottning, Shuri, M’Baku, Okoye og Dora Milaje að berjast til að verja Wakanda konungdæmið fyrir ágangi heimsvelda. Hetjurnar verða að snúa bökum saman til að marka þjóð sinni nýja framtíð. Þetta er það sem Marvel ofurhetjumyndin Black Panther: Wakanda Forever fjallar um en kvikmyndin verður frumsýnd á morgun, föstudag, hér á Íslandi.

Átök og óvinir úr öllum áttum.

Marvel Studios hóf undirbúning myndarinnar strax eftir frumsýningu Black Panther í febrúar 2018. Fljótlega tókust samningar við leikstjórann, Ryan Coogler, um að hann leikstýrði einnig framhaldsmyndinni, Black Panther: Wakanda Forever, og um mitt ár 2019 staðfesti Marvel Studios að vinna væri hafin.

Setti strik í reikninginn

Í ágúst 2020 lést Chadwick Boseman, sem lék T’Challa konung, af völdum ristilkrabba og setti það strik í reikninginn varðandi undirbúning framhaldsmyndarinnar. Marvel ákvað að fá ekki nýjan leikara í hlutverkið. Aðrir leikarar úr fyrri myndinni snúa hins vegar aftur og titill nýju myndarinnar var tilkynntur í maí 2021.

Slasaðist við tökur

Tökur hófust svo seint í júní það ár og stóðu yfir fram í nóvember. Tekið var upp í Atlanta og Brunswick í Georgíufylki og einnig í Boston í Massachusetts, en gera þurfti hlé á tökum vegna þess að Letitia Wright slasaði sig við tökur. Tökur hófust svo á ný í janúar á þessu ári og lauk þeim seint í mars í Púertó Ríkó.

Upphaflega ætlaði Ryan Coogler að láta Black Panther: Wakanda Forever og fleiri framhaldsmyndir snúast að einhverju leyti um það hvernig T’Challa í meðförum Chadwicks Bosman myndi vaxa sem konungur þar sem ríki hans var nýtt af nálinni í kvikmyndaheimi Marvel þrátt fyrir að í myndasögum Marvels hefði hann ríkt frá því að hann var barn að aldri.

Angela Bassett í hlutverki sínu.

Allt breyttist þetta samt, eins og oft gerist með bestu áætlanir músa og manna. Chadwick Boseman lést úr ristilkrabba 28. ágúst 2020. Coogler leikstjóri sagðist ekki hafa vitað af veikindum Bosemans, síðasta árið hefði hann verið að ímynda sér og semja texta fyrir hann sem aðdáendur myndu nú aldrei njóta.

Niðurstaðan í Black Panther: Wakanda Forever svíkur hins vegar engan Marvel-aðdáanda.

Fróðleikur

-Ryan Coogler hefur sagt að það erfiðasta sem hann hafi gert sé að gera þessa mynd án Chadwicks Boseman.

-Derrick Boseman, bróðir Chadwicks, var á móti því að skrifa T’Challa, persónuna sem bróðir hans lék í Black Panther, út úr myndaflokknum eftir dauða Chadwicks. Hann telur að ráða hefði átt nýjan leikara og að bróðir hans hefði ekki viljað láta persónuna deyja með sér.

-Tenoch Huerta lærði tungumál Maya fyrir hlutverk sitt sem Namur. Hann var ósyndur en lærði einnig að synda fyrir hlutverkið.

– Þrítugasta myndin í kvikmyndaheimi Marvel.

Aðalhlutverk: Tenoch Huerta, Angela Bassett, Danai Gurira, Letitia Wright og Lupita Nyong’o

Handrit: Ryan Coogler og Joe Robert Cole

Leikstjórn: Ryan Coogler