Gísli Darri tilnefndur til Óskarsverðlauna

Stuttmyndin Já fólkið eftir Gísla Darra Halldórsson hlaut rétt í þessu tilnefningu til Óskarsverðlauna. Verðlaunahátíðin fer svo fram 25. apríl næstkomandi, en þess má einnig geta að lagið Húsavík úr Eurovision Song Contest: The Story of Fire Saga hlaut tilnefningu í flokki besta frumsamda lags úr kvikmynd.

Já fólkið hefur vakið mikla athygli víða á undanförnum mánuðum og sópað til sín verðlaunum. Teiknimyndin var sýnd á RIFF í fyrra og hlaut þar viðurkenningu fyrir bestu íslensku stuttmyndina, auk þess að hafa hlotið verðlaun á Fredrikstad Animation Festival og verðlaun yngstu áhorfendanna (Children’s Choice Award) á Nordisk Panorama. Þá vann hún einnig í flokki Bestu evrópskrar stuttmyndar á 3D Wire, en sú hátíð er haldin árlega á Spáni og er með þeim stærri í Evrópu þar sem áhersla er lögð á tölvuleiki, teiknimyndir og ýmiss konar nýmiðla. Dómnefndir hafa sérstaklega hrósað stíl, húmor og enduráhorfunargildi teiknimyndarinnar.

Já-fólkið er níu mínútna löng og segir leikstjórinn myndina vera óð til hversdagsleikans, en þar eru endurtekningar á vönum, rútínum og speglun sjálfs hluti af meginþemanu. Myndin segir frá íbúum í einn sólahring en þegar líða tekur á daginn fer lífsmynstur hvers og eins að afhjúpa persónurnar.

Gísli Darri, sem deilir tilefningunni ásamt Arnari Gunnarssyni framleiðanda, hóf vinnu við myndina árið 2013 og segir það hafa reynst vel að hafa framleiðsluferlið langt. „Þetta var svolítið stopp og start ferli. Myndin var heillengi í vinnslu, en það leyfði henni líka að vaxa,“ sagði leikstjórinn í viðtali við Kvikmyndir.is.

„Þetta er verkefni sem ég kom með til þeirra [hjá Caoz] en þeir hafa mikla reynslu af „animation“ vinnu fyrir barnamyndir. Já-fólkið var þó ekki sérstaklega ætluð börnum þegar ég skrifaði myndina, en það er gaman að sjá viðbrögðin hjá þeim hópi og fleirum“.

Óskarsverðlaunahátíðin er langstærsti viðburður tileinkaður kvikmyndum í Bandaríkjunum og er þetta í 93. skipti sem hátíðin fer fram.