22 – Stóru, loðnu feilspor Hobbitans

Hringadróttinssaga í umsjón nýsjálenska undrabarnsins Peters Jackson kom, sá, sigraði heiminn og ruddi veginn á ýmsum sviðum; í brellum, brögðum og öðrum kraftaverkum í kvikmyndagerð. Þessi virðulegi og stórvinsæli þríleikur vakti veröld og sígildu verk Tolkiens til lífs á skjánum sem aldrei fyrr og komst seigla Jacksons og teymisins skjótt í sögubækurnar fyrir að rúlla upp fordæmalausu afreki. Slíkt endurtekur sig sjaldan tvisvar.

Þá tók auðvitað síðar við ferlið og verkefnið sem hinir hörðustu unnendur Máttarbaugsins klóruðu sér lengi í hausnum yfir; aðlögun Hobbitans.

Flestir þeirra sem unnu að hinum undarlega Hobbitaþríleik hafa reynst óhræddir við að segja frá skipulagsleysinu og erfiðleikunum á bak við tjöldin. Jackson svaraði kallinu og sat aftur við stjórnvölinn, eða var réttar sagt tilneyddur til þess. Þó kvikmyndirnar um Hobbitann eigi sér vissulega sína unnendur er næstum því ómögulegt að sjá ekki sprungurnar í smíðunum.

Hvernig urðu tvær fyrirhugaðar bíómyndir að þremur á síðustu stundu? Af hverju er svona mikið um martraðarsögur af settinu? Hvernig urðu fáeinar blaðsíður í bókinni að tveggja tíma orrustuorgíu?

Sigurjón og Tómas veita þau svör og fleiri, rýna í umræddu sprungurnar, saumana og kafa hressilega djúpt í nokkur djúp sár, en leyfa sér líka að muna eftir hinu jákvæða úr myndunum.