Tenet krufin til mergjar: Er Nolan með gráa fiðringinn?

Heiðar Sumarliðason, sem heldur úti kvikmyndaþættinum Stjörnubíói, ræddi nýjustu spennumynd Christophers Nolan. Myndin var frumsýnd á dögunum í kvikmyndahúsum borgarinnar, en þar gefst áhorfendum færi á að sjá fyrstu stórmyndina í tæpa sex mánuði.

Hátt í 80 myndum var frestað vegna kórónuveirufaraldursins. Þar á meðal eru fjölmargar kvikmyndir sem átti að sýna í vor eða sumar. Faraldurinn hefur jafnframt haft áhrif á útgáfudag kvikmynda sem væntanlegar eru á næsta ári. 

Eftir að kvikmyndahús opnuðu á ný í kjölfar Covid-19 hefur verið reynt að bæta upp skort á nýjum titlum með því sýna eldri myndir, meðal annars stóran hluta af eldri myndum Nolans.

Sportbíll leikstjórans

Gestir þáttarins að sinni eru Bryndís Ósk Þ. Ingvarsdóttir sviðslistakona ásamt undirrituðum. Ekki eru allir á sama máli varðandi gæði kvikmyndarinnar og segir Heiðar myndina vera ruglingslega. Bryndís vekur upp þá spurningu um hvort Tenet beri merki um að leikstjórinn virti sé að kljást við gráa fiðringinn. 

„Þessi hugmynd með að sýna tímann aftur á bak dóminerar myndina aðeins of mikið,“ mælir Heiðar í þættinum. „Hún nær ekki að vera nógu fullnægjandi upplifun sem flýgur á öllum hreyflum.“

Bryndís segir persónur myndarinnar vera einhliða og tekur Heiðar undir þau orð.

„Er ekki (Nolan) bara kominn með gráa fiðringinn núna?“ spyr Bryndís. „Þessi mynd er sportbíllinn hans.“

Heiðar birti einnig ritdóm um Tenet á Vísi og segir þar: 

„Þar sem hún á að vera bjargvættur kvikmyndahúsanna langar mig mikið til að geta gefið Tenet fleiri stjörnur, en til þess skortir hana of margar af þeim eindum sem prýða framúrskarandi kvikmyndir. Flott hasaratriði eru til einskis ef manni er nokk sama um persónurnar og samhengi þeirra er ekki merkilegra en raun ber vitni.“


Við hvetjum kvikmyndaáhugamenn til að hlusta á þáttinn hér fyrir neðan.

Má geta þess að birtur verður ritdómur um myndina frá Kvikmyndir.is á næstu dögum.