RIFF með breyttu sniði í ár

Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík (RIFF) mun halda sinni dagskrá í ár en fer þó að mestu leyti fram á netinu. Hátíðin verður sett þann 24. september næstkomandi og stendur til 4. október.

Í tilkynningu frá RIFF segir Hrönn Marinósdóttir, stjórnandi hátíðarinnar, að gestir munu geta notið hágæða kvikmynda heima í stofu og er áformað að sýna evrópskar kvikmyndir fram eftir hausti á sérstökum þemavikum og byggja brú yfir til Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna sem eiga að fara fram í Hörpu í desember.

Hrönn fær orðið:
„Dagskrá hátíðarinnar verður að vanda vegleg, fjölbreytt og í takt við umræðuna í samfélaginu. Hinn þekkti dagskrárstjóri Frédéric Boyer fer fyrir dagskrárnefnd RIFF í ár. Hann hóf feril sinn á vídeóleigu í París og er í dag listrænn stjórnandi Tribeca kvikmyndahátíðarinnar í New York og Les Arcs European Film Festival sem eru meðal þekktustu kvikmyndahátíða heims. Hann hefur einnig verið aðal dagskrárstjóri Director´s Fortnight hluta kvikmyndahátíðarinnar í Cannes.

Áhersla hefur verið lögð á að sýna vandaðar, evrópskar kvikmyndir á hátíðinni og verður því fylgt sérstaklega eftir í ár í tilefni þess að í desember verða EFA Evrópsku kvikmyndaverðlaunin veitt í Hörpu. Ætlunin er að byggja brú yfir til EFA með því að sýna myndir fram í desember þegar verðlaunin verða veitt og stendur RIFF því yfir í um þrjá mánuði í ár.

„Það er mikill heiður að því að verðlaunin verði veitt hérlendis og gefur þeim sem starfa hér í kvikmyndageiranum og okkur hjá RIFF byr undir báða vængi. Af þessu tilefni munum við gera evrópskri kvikmyndagerð enn hærra undir höfði með því að skipuleggja sérstakar þemavikur fram eftir hausti undir merkjum RIFF. Þetta er spennandi tækifæri til að leyfa hátíðinni að lifa lengur inn í haustið og geta sýnt enn fleiri kvikmyndir,“ segir Hrönn.

Dagskráin verður gerð opinber smám saman og í heild þegar líða tekur á september. Aðgöngumiði á hátíðina veitir aðgang að fjölda kvikmynda sem hægt verður að nálgast á notendavænu formi á þar til gerðu vefsvæði. Um er að ræða sama vefviðmót og notað er á fjölda þekktra kvikmyndahátíða m.a. Copenhagen Pix, Locarno Film Festival í Sviss og Sundance kvikmyndahátíðinni.“