Lengri útgáfur Hringadróttinssögu – Í fyrsta sinn í bíó á Íslandi

Í þessari viku má búast við opnun Sambíóanna í Egilshöll, en þar var skellt í lás vegna COVID-19 í heila þrjá mánuði, og á boðstólnum þar verður mikil veisla fyrir unnendur Lord of the Rings-þríleiksins frá Peter Jackson.

Ekki nóg með það að kvikmyndirnar þrjá verði sýndar á stærsta bíótjaldi landsins, heldur verða myndirnar aðgengilegar í lengri útgáfunum margumtöluðu. Um er að ræða töluverðan mun á milli útgáfa, eins og aðdáendur myndanna þekkja vel, og verður sú fyrsta, The Fellowship of the Ring, tekin til sýninga þann 24. júní. Viku síðar verður miðjumyndin, The Two Towers, komin í almennar sýningar og þann 4. júlí verður þrennan fullkomnuð.

The Lord of the Rings-myndirnar, sem byggðar eru á stórfrægu bókum J.R.R. Tolkien, unnu 17 Óskarsverðlaun samtals og hafa frá upphafi verið kvikmyndaáhugafólki mikill fjársjóður. Fólk stundar það grimmt að hlaða í maraþon, oftast árlega (í kringum jólin), en aldrei áður á Íslandi hefur gefist tækifæri til að njóta myndanna í almennilegum kvikmyndasal.

Fyrir fólk sem er extended-útgáfunum ókunnugt má sjá hér dæmi um hversu mikinn mun á heildarlengd myndanna er að ræða.

The Fellowship of the Ring: Extended útgáfa = 3 klukkutímar og 48 mínútur (rúmum 30 mínútum bætt við)

The Two Towers: Extended… = 3 klukkutímar og 55 mínútur (tæpum 45 mínútum bætt við)

The Return of the King: Extended… = 4 klukkutímar og 23 mínútur (50+ mínútum bætt við)

Hér að neðan má sjá eitt þekktasta dæmið um senu sem rataði ekki í bíóútgáfu þriðju myndarinnar, sem var mörgum aðdáendum mikið hitamál á sínum tíma (varist spilla!)

https://www.youtube.com/watch?v=djmahoN32A8