Segja hugsanlegt að Bond frestist til næsta árs

Útgáfa nýju myndarinnar um James Bond, No Time to Die, er hugsanlega komin á nýtt óvissustig, en frá því er greint í Daily Mail. Segir þar að framleiðendur vilji líklegast gefa myndina út þegar meiri fullvissa er um að samkomur verði áhættulausar. Upphaflega stóð til að sýna myndina síðastliðinn apríl áður en dagsetningin færðist til nóvembermánaðar. No Time to Die var fyrsta stórmyndin til að falla af frumsýningarplani ársins vegna COVID en nú er útlit fyrir að njósnarinn láti ekki sjá sig fyrr en á næsta ári.

Framleiðendur hafa sagt það alveg öruggt að Bond-myndin verði ekki gefin út á streymisveitur samhliða útgáfu í kvikmyndahúsum.

„Það eru hundruð milljónir (Bandaríkjadala) í húfi. Best er að gefa myndina út þegar áhorfendum líður þægilega með að sækja kvikmyndahús á ný,“ segir heimild Daily Mail.

„Allt eða ekkert“

Ein ástæða fullyrðingarinnar hjá Universal um að Bond fari ekki beint á streymisveitur þegar líður að frumsýningu fellst í umdeildum ummælum framleiðenda kvikmyndaversins um framtíð kvikmyndahúsa. Víða í erlendri pressu hefur verið fjallað um ágreining á milli Universal og kvikmyndahúsakeðjanna Odeon og Cineworld (AMC).

No Time to Die er að hluta til framleidd af Universal en deilurnar hófust þegar teiknimyndin Trolls: World Tour sló í gegn á streymisveitum. Þá tilkynnti kvikmyndaverið að framvegis stæði til að gefa út flestar stórmyndir út á streymisveitum og fyrr. Bættu þeir einnig við að færri kvikmyndir frá þeim yrðu gefnar út í kvikmyndahúsum. Eigendur stærstu bíókeðju vestanhafs, AMC, voru ekki par sáttir með þessa ákvörðun og sögðust þá framvegis ætla ekki að sýna titla frá Universal í sínum sölum. Eigendur Odeon kvikmyndahúsa tóku þá í sama streng.

Í frétt Daily Mail segir heimildarmanneskjan að það sé „allt eða ekkert“ þegar kemur að frumsýningu nýju Bond-myndarinnar. Mikilvægt sé að myndin hali inn sem mestum tekjum og slái í gegn í kvikmyndahúsum enda engu tilsparað við gerð myndarinnar.

Reiknað er með að No Time to Die hafi kostað í kringum 250 milljónir Bandaríkjadollara. Þar er ekki meðtalinn kostnaður við kynningar og auglýsingar og hefur myndin þegar þurft að glíma við tekjumissi vegna frestun útgáfunnar.

No Time to Die er 25. myndin í seríunni um Bond og fer Daniel Craig með hlutverk njósnarans fimmta og síðasta sinn. Í myndinni mun Bond snúa aftur eftir að hafa lagt byssuna á hilluna og sest í helgan stein, en endurkoman fylgir í kjölfarið á því þegar Felix Leiter, gamall kollegi síns hjá CIA leyniþjónustunni, kallar eftir aðstoð hans. Leikstjóri myndarinnar er Cary Fukunaga, en hann er þekktastur fyrir kvikmyndina Beasts of No Nation (2015) ásamt fyrstu seríu True Detective.