Sannar að hægt er að gera jafnræði kynþokkafullt

„Konum í myndinni er aldrei refsað fyrir kvenleika, kynhvöt eða kynhneigð sína. Engin sektarkennd fylgir kynhneigð þeirra eins og oft er tilfellið í kvikmyndum sem fjalla um hinsegin fólk, kynhneigð þeirra er náttúruleg og flæðandi eins og hafið.“

Þetta skrifa þau Jóna Gréta Hilmarsdóttir og Hrafnkell Úlfur Ragnarsson, kvikmyndafræðinemar, á vefritið Hugrás um kvikmyndina Svipmynd af hefðarkonu í logum (e. Portrait of a Lady on Fire), mynd sem er af mörgum talin til þess allra besta sem ratað hefur í íslensk kvikmynahús á undanförnum misserum. Báðir höfundar, sem eru gífurlega hrifnir af myndinni, eru meðlimir í Engum stjörnum en Jóna Gréta er nemandi í kvikmyndafræði við Íslensku– og menningardeild Háskóla Íslands en Hrafnkell er nemandi í heimspeki við Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands.

Kvikmyndin Portrait of a Lady on Fire keppti um Gullpálmann á kvikmyndahátíðinni Cannes 2019 þar sem hún hreppti Queer Palm verðlaunin en um er að ræða fyrstu kvikmyndina sem leikstýrð er af konu sem hlýtur þau verðlaun. Einnig hlaut Celine Sciamma verðlaun fyrir besta handritið á hátíðinni. Myndin var frumsýnd á Frönsku kvikmyndahátíðinni fyrr á þessu ári.

Myndin fjallar um konuna í allri sinni dýrð og ljóma, og karlkynið er nánast alfarið fjarverandi, eins og segir í greininni – að tveimur atriðum undanskildum.

„Þannig er frásögnin kvenlæg og leitast er við að fjalla um og sýna kvenlegt hlutskipti, það sem felst í því að vera kona. Dæmi um þetta er umfjöllun myndarinnar um gildi systralags, kynhvöt kvenna, ferli fóstureyðingar, og úrræði við túr. En þrátt fyrir forföll karlmannsins viðheldur feðraveldið sér að einhverju leyti.

Karlmaðurinn þarf ekki að vera til staðar til þess að feðraveldið haldi áfram að ríkja. Í þessu tilviki er það móðirin (Valeria Golino) sem viðheldur feðraveldinu með því að stilla kröfum þess upp sem lögmáli á heimilinu. Móðirin neyðir til að mynda Héloïse í hjónaband. Það sést hvað skýrast hvernig móðirin er táknmynd feðraveldisins þegar hún yfirgefur heimilið. Þá losna alla hömlur og Héloïse og Marianne geta elskast í friði – dómstóll feðraveldisins er tímabundið afnuminn.“

Segir einnig í greininni að kvikmyndin sanni að hægt er að gera jafnræði kynþokkafullt. „Marianne og þernan Sophie (Luàna Bajrami) eru birtar í myndmálinu sem jafningjar Héloïse þrátt fyrir að þær starfi báðar fyrir hana. Meira að segja listin verður þeirra sameiginlega verkefni þegar Héloïse fær hugmyndina um að endurleika fóstureyðingu sem Sophie fór í gegnum og Marianne málar þær.

Marianne er í raun ekki að vinna fyrir Héloïse né heldur reynist Héloïse vera einhvers konar kynlífsbrúða eða innblástur fyrir listamanninn, þær eru jafningjar. Sciamma tekst jafnvel að gera samþykki kynþokkafullt þegar Héloïse og Marianne kyssast í fyrsta sinn. Báðar er þær með slæðu fyrir vörunum á sér og draga þær niður svo sjáist í munn þeirra á sama tíma, og í kjölfar þess kyssast þær.“

Greinina má lesa í heild sinni HÉR.