Mikið talað um nektina í Síðustu veiðiferðinni – „Hún er ekki bönnuð börnum“

Enn er mikil aðsókn á Síðustu veiðiferðina þrátt fyrir kórónavírus og meðan aðsókn í bíó dregst saman um nær helming milli helga. Íslenska gamanmyndin hélt þó efsta sæti aðsóknarlista helgarinnar, aðra vikuna í röð, og hafa nú rúmlega ellefu þúsund manns séð myndina. Fróðlegt verður að sjá hvað myndin gerir í yfirstandandi viku í ljósi stöðunnar.

Allflestir miðlar hafa kveðið upp sinn dóm og reynist umtalið vera gífurlega jákvætt almennt. Þetta á ekki aðeins við um gagnrýnendur, eins og neðangreindur „spotti“ gefur til kynna með ummælunum.

Svo virðist fylgja flestum umræðum um gamanmyndina hversu mikil nekt er í myndinni. Aðalleikararnir fara úr hverri einustu spjör og er lítið skilið eftir fyrir ímyndunaraflið. Einnig hafa glöggir tekið eftir afturendanum á Þresti Leó á einu af plakötum myndarinnar.

Hvað segja gagnrýnendur um Síðustu veiðiferðina?

Um Síðustu veiðiferðina segir Helgi Snær Sigurðarson, gagnrýnandi Morgunblaðsins, að handritið sé gott yfir heildina, samtöl vel skrifuð og leikarahópurinn frábær. Helgi segir þó myndina hafa mátt ganga lengra í húmornum. Hann skrifar:

„Nú kann einhver að spyrja hvort þessi gamanmynd tveggja miðaldra karla um miðaldra karla í veiðiferð eigi eitthvert erindi við aðra en miðaldra karla? Jú, hún á erindi og hafa leikstjórarnir sagt frá því að konur hafi hlegið mest á prufusýningum á myndinni. Sjálfur fór ég með syni mínum á táningsaldri á myndina og honum þótti hún bæði fyndin og bráðskemmtileg.

Hún er ekki bönnuð börnum og óþarfi að hafa áhyggjur af því að hún hafi skaðleg áhrif á unga áhorfendur. Karlar sem haga sér eins og fífl hafa löngum þótt góð skemmtun, sjá til að mynda þá Klovn -félaga, Frank og Kasper. Handritshöfundar Síðustu veiðiferðarinnar hefðu jafnvel mátt ganga enn lengra í svörtum húmor og bæta í dramatíkina og hörmungarnar.“


Hlaupið um á adamsklæðunum

Gunnar Theodór Eggertsson á Lestinni segir brandarana vera misgóða en tekst leikurunum að halda henni á floti.

„Ég hló nokkuð reglulega, þótt brandararnir væru misgóðir, og grínefnið oft fyrirsjáanlegt (glíma og samkynhneigð, ofbeldi gegn dýrum, hlaupið um á adamsklæðunum) – en það er fyrst og fremst leikaraliðið sem heldur myndinni uppi, því þetta er einvala lið og allir skína þeir í hlutverkum sínum,” segir Gunnar.

„Það skiptir öllu máli í svona mynd að áhorfendur nenni að hanga með aðalpersónunum og hér er vel raðað í hlutverk.“


Betri ef þráðum hefði verið fækkað

Heiðar Sumarliðason hjá Vísi gefur þrjár og hálfa stjörnu og segir myndina skemmtilega en hefði getað orðið mun betri.

„Fyrir þá sem eru nógu gamlir til að muna þá tíð, var mjög oft kvartað undan því að íslenskar kvikmyndir skorti fókus og væru of oft samansafn sniðugra sena, frekar en heilsteypt verk. Síðasta veiðiferðin fellur eins og flís við rass inn í þann flokk.

Góðu fréttirnar eru að Síðasta veiðiferðin er nægilega skemmtileg til að halda athygli áhorfenda allan tímann, en þær slæmu eru að hún hefði getað orðið mun betri ef þráðum hefði verið fækkað og unnið betur úr þeim sem virkuðu. Það er hinsvegar alltaf gaman að sjá kvikmyndir sem einungis eru gerðar til að skemmta Íslendingum. Síðasta veiðiferðin er ein slík og ættum við að taka henni opnum örmum,”
skrifar Heiðar.


Hressandi rasshausar á óhressandi tímum

Í dómi DV segir að gamanmyndin sé brattur, ýktur en mátulega jarðbundinn farsi. Gagnrýnandi skrifar:

„Á blaði virkar húmor myndarinnar eins og ódýr tímaskekkja; allt frá kúk- og pissbröndurum til dýraníðs- og „gay-panic“-brandara. Einhvern veginn tekst þó, með einhverjum töfrandi bræðingi, hjá leikstjórunum og leikhópnum að selja farsann og gera hann trúverðugan og sannfærandi…

Á meðan gamanið fær að halda sér í gamanmynd, sérstaklega þegar hún rétt slagar í 90 mínútur, telst mest allt annað til of mikillar krufningar. Á óhressandi tímum má ýmislegt verra gera en að hlæja að fáeinum rasshausum.“


Aldrei séð svona mikla nekt

Það vakti athygli viðmælenda Lestarklefans á Rás 1 hve langt er gengið í nektarsenum karla í Síðustu veiðiferðinni, nýrri íslenskri gamanmynd, en myndin er margbrotnari en í fyrstu blasir við. Þetta kemur fram á vef RÚV og þar segir einnig:

Gestir Lestarklefans eru sammála um að myndin minni um margt á rassaköst danska tvíeykisins í Klovn en í Síðustu veiðiferðinni er gengið óvenju langt í nektarsenum karlanna. „Það er varla til íslensk kvikmynd án þess að það séu naktir karlmenn,“ segir Áslaug Hulda, „en maður hefur samt aldrei séð þetta svona – svona lengi og svona mikið.“ Nektarsenurnar geti meira að segja boðið upp á femínískar vangaveltur bætir hún við.