Þorsti til dreifingar í Norður-Ameríku: Sögð vera frumleg og flugbeitt rússíbanareið

Íslenska „gay-vampírumyndin“ Þorsti, í leikstjórn Gauks Úlfarssonar og Steinda Jr., hefur verið seld til dreifingar í Norður-Ameríku.

Frá þessu er greint frá í fréttamiðlinum Variety en það eru bandarísku sölufyrirtækin Uncork’d Entertainment og Dark Star Pictures sem keyptu réttinn til að dreifa myndinni vestanhafs af danska fyrirtækinu LevelK. Myndin hefur einnig verið keypt af fyrirtækinu Njutafilms, sem sér um að dreifa myndinni til Svíþjóðar, Danmerkur, Finnlands og víðar.

Þorsti var nýverið sýnd á viðburðinum European Film Market og vakti gífurlegt umtal. Hermt er að Keith Leopard, forstjóri Uncork’d Entertainment hafi verið hæstánægður með myndina og segir hana vera „hömlulausa blöndu af flokkum“ og í senn mikla rússíbanareið. Sparaði hann ekki stóru orðin og sagði að „Þorsti gæti vel verið krúnudjásnið“ af því sem LevelK hafði upp á að bjóða síðustu árin.

Þá er haft eftir Tine Klint, framkvæmdastjóra LevelK, að Þorsti sé einmitt bæði frumleg og flugbeitt, sem Tine segir vera þá tegund kvikmynda sem fyrirtækið leggur sérstaka áherslu á að markaðssetja.

Stjörnufans og áhugaleikhópur

Þorsti var frumsýnd á Íslandi síðastliðinn nóvember við góðar undirtektir áhorfenda. Myndin er unnin í samstarfi við áhugamannaleikhópinn X og Hjört Sævar Steinason. Ásamt Hirti fara þau Hulda Lind Kristinsdóttir, Jens Jensson, Ester Sveinbjarnardóttir, Birgitta Sigursteinsdóttir og Birna Halldórsdóttir með helstu hlutverk. Steindi Jr. fer sjálfur með hlutverk í myndinni og fara þjóðþekktar stjörnur með ýmis aukahlutverk, þar á meðal Halldóra Geirharðsdóttir, Ingvar E. Sigurðsson og margir fleiri.

Þorsti gerist í litlum bæ, ekki ólíkum Reykjavík þar sem óöld liggur í loftinu og undarlegir glæpir og hrottaskapur virðast vera daglegt brauð. Myndin fjallar um Huldu sem er grunuð um að hafa orðið valdur að andláti bróður síns og er því til rannsóknar hjá Jens rannsóknarlögreglu. Móðir Huldu, sem skolar niður pillum með bláum Smirnoff á morgnana, trúir því einnig að hún hafi orðið bróður sínum að bana.

Eftir að hafa verið sleppt úr varðhaldi hefur hún í engin hús að venda og þvælist um þar til hún rekst á Hjört, mörg þúsund ára gamla, einmana og samkynhneigða vampíru sem hjálpar henni að vekja Steinda, bróður hennar, til lífs aftur með hræðilegum afleiðingum á sama tíma og þau þurfa að verjast ágangi Esterar og Birgittu og sértrúarsöfnuði þeirra, sem virðist elta þau á röndum.

„Mest kreisí hlutur sem ég hef upplifað“

Hér að neðan má sjá kostulegan kafla úr myndinni þar sem Birgitta Sigursteinsdóttir stígur inn í leigubíl, en þar er bílstjórinn enginn annar en Jón Gnarr. Ferðinni er heitið á Hlíðarhúsarveg og þá rifjar persóna Jóns upp minningu í tengslum við látinn föður sinn og áfangastaðinn. „Þetta er líklega mest kreisí hlutur sem ég hef upplifað á ævinni,“ segir Jón.

Sjón er sögu ríkari, en Andrea Björk Andrésdóttir (annar helmingur dúósins úr Bíó Tvíó) sá um teikningar og grafík í neðangreindum kafla.