Stórmyndir hríðfalla af planinu – Fast & Furious 9 færð til næsta árs

Skömmu eftir að framleiðendur nýjustu James Bond-kvikmyndarinnar, No Time to Die, ákváðu að fresta útgáfu um sjö mánuði í kjölfar veirufaraldursins alræmda, fóru önnur kvikmyndaver að íhuga sambærilegar breytingar.

Nú er búið að tilkynna að útgáfu níundu Fast & Furious myndarinnar seinkar um tæpt ár. Til stóð að frumsýna myndina næstkomandi maí en nú mun stórmyndin ekki bruna í kvikmyndahús fyrr en í apríl 2021. Að sama skapi hefur hrollvekjan A Quiet Place: Part II verið sett á bið í ótilgreindan tíma, en myndina átti að frumsýna í næstu viku. Leikstjórinn og leikarinn John Krasinski tilkynnti þetta í dag.

Búast má við fleiri tilfellum um frestanir á næstunni og velta margir eflaust fyrir sér hvort Mulan, Wonder Woman, Black Widow og fleiri væntanlegar stórmyndir verði næstar í röðinni til að víkja frá.