Hryllingsmynd í anda #metoo – „Spenna, drungi og skelfing“

Spennuhrollurinn The Invisible Man er frumsýnd nú um helgina og tekur glænýjan, nýstárlegan snúning á sígildu sögu H.G. Wells. Myndinni er leikstýrt af ástralska kvikmyndagerðarmanninum Leigh Whannell og sér hann einnig um handritið. Whannell hefur farið yfir nokkuð víðan völl í spennugeiranum og var á meðal upprunalegu aðstandenda Saw- og Insidious-myndanna, leikstýrði fjórðu myndinni í síðastnefndu seríu og stóð á bak við költ-myndina Upgrade.

Söguþráður The Invisible Man segir frá því þegar erfiður eiginmaður Ceciliu (leikin af Elisabeth Moss) fremur sjálfsmorð og erfir hana að umtalsverðum fjármunum. Fljótlega fer hana að gruna að dauði hans hafi verið sviðsettur. Eftir að hver atburðurinn rekur annan þar sem hún lendir í lífshættu, þá reynir hún að sanna að hún sé elt af ósýnilegum manni.

Fyrstu dómar fyrir myndina fóru að birtast nú á dögunum og má segja að umtalið sé í jákvæðari kantinum. Tímaritið Time Out segir myndina vera „hryllingsmynd í anda #metoo “ og segir tímasetningu myndarinnar ómögulega getað betur hentað. Variety mælir einnig með myndinni og segir hana vera spennuþrungna en ofar öllu með sterkan boðskap og undirtóna þar sem ofbeldissambönd eru í brennidepli.

„Í ofbeldissamböndum færðu það sem þú sérð, en það sem nær þér er allt sem þú sérð ekki,“ segir í dómnum.

„Myndin svipar talsvert til Hitchcock-mynda; Spenna, drungi og hrein skelfing og nálgunin sem er tekin á ósýnilega manninn er hrein snilld,“ segir í umfjöllun The Weekend Warrior.


BÍÓMIÐALEIKUR

Til að vinna boðsmiða á myndina fyrir þig og einn gest þarft þú – lesandinn – að skrifa fyrir neðan færsluna svar (eftir eigin höfði) við eftirfarandi spurningu:

Hver er þinn uppáhalds karakter, í kvikmyndasögunni eða víðar í poppmenningu, sem er gæddur þeim eiginleika að geta orðið ósýnilegur (Og já, Fróði úr Hringadróttinssögu telst með).

Haft verður samband við vinningshafa á laugardaginn, með nánari upplýsingar um hvernig skal nálgast miðana. Umræddir miðar gilda á allar almennar sýningar en myndin er frumsýnd næstkomandi föstudag.

Við bendum einnig á að hægt er að taka þátt í like-leik á Facebook-síðu vefsins.