Reeves hefur lesið Matrix 4 handritið

Aðdáendur kvikmynda-þríleiksins The Matrix, eða Fylkisins eins og myndirnar heita á íslensku, ættu nú að sperra eyrun, því eftir allskonar vangaveltur, sögusagnir og slúður, þá er núna vitað að aðalleikarinn, Keanu Reeves, mun snúa aftur í hlutverki sínu sem forritarinn Neo, í fjórðu Matrix myndinni.

Neo í Fylkinu.

En Reeves hefur nú bætt um betur, því hann hefur staðfest að hann sé búinn að lesa handrit nýju myndarinnar, og því er allt útlit fyrir að myndin sé fyrir alvöru að verða að veruleika.

Í samtali við ET á rauða dreglinum fyrir kvikmyndina Semper Fi, sem er framleidd af systur hans Karina Miller, var leikarinn spurður um stöðuna á Matrix 4, og hvort að hann hefði í alvöru lesið handrit myndarinnar. Hann staðfesti að handritið væri til, og hann hefði lesið það.

„Það er mjög metnaðarfull. Eins og það á að vera!“ sagði Reeves.

Auk Reeves mun Matrix leikkonan Carrie-Anne Moss snúa aftur, og leikstjóri og handritshöfundur er Lana Wachowski.

Útlit er fyrir að kvikmyndin komi í bíó í fyrsta lagi árið 2021, og tökur hefjist snemma á næsta ári.