Kryfja It Chapter Two í Stjörnubíói

It Chapter Two er nú komin í kvikmyndahús borgarinnar, en þar gefst áhorfendum færi á að fylgjast með áframhaldandi ævintýrum „lúseranna“ frá Derry og baráttu þeirra við trúðinn Pennywise.

Pennywise bakvið brotið gler.

Heiðar Sumarliðason, sem heldur úti kvikmyndaþættinum Stjörnubíói á útvarpsstöðinni X977, ræddi myndina við Tómas Valgeirsson kvikmyndaáhugamann og blaðamann DV í nýjasta þættinum, sem sendur var út á sunnudag, en er aðgengilegur einnig á netinu.

Það er óhætt að segja að þeir hafi ekki hoppað hæð sína yfir þessari kvikmyndaútgáfu af skáldsögu Stephen King.

Í þættinum, sem er ávallt á dagskrá í hádeginu á sunnudögum, er einnig að finna síðari undanúrslitaviðureign spurningakeppni Stjörnubíós. Þar mætir fyrrnefndur Tómas Hannesi Óla Ágústssyni, leikara, sem hefur getið sér gott orð á síðustu árum fyrir að túlka fyrrum forsætisráðherra Sigmund Davíð Gunnlaugsson meðal annars.

Nú þegar hefur Sigríður Clausen, leikskólakennari og kvikmyndaspekúlant, tryggt sér sæti í úrslitum spurningakeppninnar, með því að sigra Hrafnkel Stefánsson, handritshöfund. Meðal þeirra sem hafa þegar dottið úr keppni eru Jóhannes Haukur Jóhannesson, Þórarinn Þórarinsson og Sveppi.

Við hvetjum kvikmyndaáhugamenn til að hlusta á þáttinn hér fyrir neðan: