Elton John mótmælir harðlega rússneskri ritskoðun

Breski tónlistarmaðurinn Elton John bregst harkalega við fréttum af því að rússneskur dreifingaraðili hinnar ævisögulegu kvikmyndar Rocketman, sem fjallar um Elton sjálfan, hafi klippt atriði úr myndinni.

Elton John ásamt ástmanni sínum og umboðsmanni í Rocketman.

Segir Elton að slíkt framferði sé enn eitt dæmið um þá staðreynd að heimurinn eigi enn erfitt með að sjá að ástin geti kviknað á milli annarra en bara karls og konu.

„Við höfnum harðlega þeirri ákvörðun að ritskoða Rocketman fyrir rússneska markaðinn, sem við heyrðum ekki af fyrr en í dag … að dreifingaraðilanum í landinu hafi þótt það nauðsynlegt að klippa út ákveðin atriði, og gefa áhorfendum ekki tækifæri til að sjá myndina eins og hún var ætluð til sýninga. Þetta er sorgleg endurspeglun á því hvað heimurinn er enn skiptur í tvennt, og hvernig sumum þykir enn ómögulegt að sjá ástina kvikna milli manna,“ tísti söngvarinn í gær föstudag, en myndin var frumsýnd um allan heim í liðinni viku, þar á meðal hér á Íslandi.

Dreifingaraðilinn staðfesti þann 31. maí að kvikmyndin hefði verið klippt til, en sagði að breytingarnar væru nauðsynlegar vegna laga í Rússlandi. Dreifingaraðilinn gat ekki útskýrt til hvaða laga hann var að vísa nákvæmlega.

Þegar hann var spurður hvort að klippingin væri ritskoðun, sagði talsmaður stjórnvalda, Dmitry Peskov, að hann þekkti ekki þessa mynd, og vissi ekki um þessa styttingu myndarinnar, eða hver gæti hafa mælt með slíku.

Ráðuneytið bannaði ekki

Menntamálaráðherra Rússlands, sagði rússnesku vefsíðunni Sputnik að ráðuneytið væri ekki á bakvið klippinguna, og sagði að dreifingaraðilinn hefði ákveðið þetta sjálfur.

Árið 2013 voru sett lög í Rússlandi sem bönnuðu dreifingu samkynhneigðs áróðurs á meðal barna. Lögin urðu þekkt sem „homma áróðurslögin“ og hafa fengið mikla gagnrýni. Stjórnvöld hafa varið lagasetninguna og sagt hana eingöngu til að vernda börnin.

Myndin er samt sem áður bönnuð innan 18 ára í Rússlandi, þrátt fyrir að atriði þar sem tveir karlmenn eru sýndir í ástaratlotum, hafa verið fjarlægð, og myndin þar með ekki líkleg til að brjóta fyrrnefnd lög.

Þess má geta að lokum að kvikmyndir.is sá myndina í gærkvöldi, og mælir sterklega með henni.