Þriggja ára Star Wars hlé

Nýjar fréttir bárust í dag úr herbúðum Stjörnstríðs þegar Disney afþreyingarrisinn tilkynnti um dagsetningar fyrir þrjár nýjar Star Wars kvikmyndir. Von er á Star Wars: The Rise of Skywalker síðar á þessu ári, en eftir hana verður nokkuð langt að bíða eftir næstu kvikmynd í bíó, eða þangað til í desember 2022.


Þetta er í takti við það sem Disney og Lucasfilm hafa áður talað um, að fyrirtækið vilji taka pásu eftir Skywalker, og beina frekar athyglinni að útbreiðslu Star Wars í sjónvarpi í gegnum nýja streymisþjónustu Disney.

Enn er ekki vitað hvaða myndir úr hvaða þríleikjum munu koma í bíó árið 2022, 2024 og 2026, eða hvort von er á því að nýr þríleikur hefjist. Leikstjóri The Last Jedi, Rian Johnson, hefur samkvæmt fréttum verið að vinna hörðum höndum að nýrri sögu sem á að gerast einhversstaðar í Star Wars heimum, á sama tíma og Game Of Thrones tvíeykið David Benioff og D.B. Weiss er að vinna að þríleik þar sem Skywalker kemur hvergi við sögu.