Suicide Squad verður algjör endurræsing

Nýja Suicide Squad ofurhetjukvikmyndin, í leikstjórn James Gunn, verður „algjör endurræsing“. Þetta staðfestir framleiðandinn Peter Safran, en upprunalega myndin var frumsýnd árið 2016.

Í samtali við Joblo kvikmyndavefinn, sem vitnað er til hér, er Safran spurður að því hvernig aðdáendur eigi að taka þessum fregnum: „Í fyrsta lagi köllum við myndina ekki Suicide Squad 2, af því að þetta er algjör endurræsing, þannig að hún heitir The Suicide Squad, og ég held að fólk ætti að vera ótrúlega spennt fyrir því.“

Og hann hélt áfram að útskýra: „Hún er allt sem þú gætir vonast eftir frá James Gunn handriti, og ég held að það segi ansi mikið, og ég veit að við munum skila góðu verki.“

Í upprunalegu myndinni var her frægra leikara, þar á meðal Margot Robbie, Will Smith og Cara Delevingne.

Myndinni gekk býsna vel í miðasölunni, en gagnrýnendur voru ekki allir hrifnir.

Einnig í Guardians of the Galaxy Vol. 3

Annars er nóg að gera hjá Gunn á ofurhetjusviðinu, því hann var nýlega aftur ráðinn til að leikstýra Guardians of the Galaxy Vol. 3. Hann leikstýrði fyrstu tveimur myndunum, en Disney rak hann í kjölfar þess að fram í dagsljósið komu gömul móðgandi tíst hans á Twitter samskiptamiðlinum. En hann var fenginn aftur um borð fyrr í þessum mánuði.

Í kjölfarið skrifaði Gunn á Twitter: „Ég er feikilega þakklátur öllum þeim sem hafa stutt mig síðustu mánuði. Ég er alltaf að læra og mun halda áfram að reyna að vera eins góð manneskja og ég get verið.“

„Ég met mikils ákvörðun Disney, og ég er spenntur að halda áfram að gera kvikmyndir sem kanna þræði ástarinnar, sem binda okkur öll saman. Ég er þakklátur frá dýpstu hjartarótum, þakka ykkur fyrir. Elska ykkur öll.“