Fúlskeggjaðir Óskarshafar skeggræða orðabók

Þegar maður horfir á fyrstu stikluna fyrir nýjustu mynd Óskarsverðlaunahafanna Sean Penn og Mel Gibson, The Professor and the Madman, verður manni hugsað til Blackadder sjónvarpsþáttar frá árinu 1987, þar sem Dr. Samuel Johnson montar sig af því að hafa klárað að skrifa orðabók með hverju einasta orði í enskri tungu. Blackadder, leikinn af Mr. Bean leikaranum Rowan Atkinson, óskar Dr. Johnson innilega til hamingju, en notar af sinni einstöku kaldhæðni strax flókin orð sem Johnson er ekki með í orðabók sinni, og rústar þar með verkinu.

Í kvikmyndinni leikur Gibson prófessor James Murray sem byrjaði að safna saman enskum orðum í fyrstu Oxford orðabókina árið 1857, og hrinti þar með af stað einu metnaðarfyllsta verki í sögu mannkyns. Penn leikur Dr. W.C. Mino, sem útvegaði 10.000 orð, en er einnig vistmaður á geðsjúkrahúsi fyrir glæpamenn.

Í frétt Empire kvikmyndaritsins af málinu segir að mikil átök hafi staðið yfir í kringum gerð myndarinnar, þar sem Gibson, og framleiðslufyrirtæki hans, Icon Productions, hafa átt í deilum við samframleiðandan sinn, Voltage Pictures, yfir lokaútgáfu myndarinnar og auka tökudögum.

Deilurnar standa enn yfir og því er ekki enn búið að ákveða frumsýningardag fyrir myndina.

En þangað til er hægt að skemmta sér við að horfa á stikluna hér fyrir neðan: