Bohemian Rhapsody sing-along í bíó

Framleiðslufyrirtækin Twentieth Century Fox, New Regency og GK Films munu fjölga bíósölum sem sýna kvikmyndina Bohemian Rhapsody, sem vann Golden Globe sem besta mynd í dramaflokki, með Rami Malek í aðalhlutverkinu, sem vann sömuleiðis verðlaunin sem besti leikari, upp í 1.300 í Bandaríkjunum og Kanada, nú í dag, föstudaginn 11. janúar.

Þar af verður myndin sýnd á 750 stöðum í sing-along útgáfunni, en þar gefst áhorfendum kostur á að syngja og stappa með tónlistinni að vild.

Chris Aronson, forstjóri innlendrar dreifingar hjá Twentieth Century Fox sagði: „Við erum himinlifandi að geta gefið áhorfendum tækifæri til að sjá þessa verðlaunakvikmynd með frábærum leik Rami Malek, í kvikmyndahúsum um öll Bandaríkin og Kanada, bæði í upprunalegri útgáfu og nýrri sing-along útgáfu.“

Bohemian Rhapsody, sem frumsýnd var á Íslandi 2. nóvember sl. og er enn í sýningum í bíó, er tekjuhæsta tónlistar-ævisaga allra tíma, en tekjur af sýningum alþjóðlega nema um 734,4 milljónum bandaríkjadala.

Breska hljómsveitin Queen var stofnuð árið 1970 og átti eftir að afla sér heimsfrægðar á næstu fimmtán árum með lögum sem eru fyrir löngu orðin sígild og allir þekkja. Í Bohemian Rhapsody er farið yfir feril sveitarinnar allt frá byrjun, með sérstakri áherslu á hlut píanóleikarans, laga- og textahöfundarins og eins besta söngvara allra tíma, Freddies Mercury, sem lést langt um aldur fram árið 1991, aðeins 45 ára að aldri. Hápunktur myndarinnar er síðan Live Aid-tónleikarnir í júlí 1985 en frammistaða Queen á þeim hefur síðan margoft verið valin og nefnd besta tónleikaframmistaða rokksveitar fyrr og síðar.

Nú er bara að vona að þessi sing-along útgáfa rati til Íslands, en ABBA kvikmyndin Mamma Mia! var sýnd í slíkri útgáfu við miklar vinsældir á sínum tíma.