10 bestu kvikmyndir ársins 2018 að mati Morgunblaðsins

Aragrúi góðra kvikmynda var frumsýndur á nýliðinu ári 2018, og við áramót eru fjölmiðlar duglegir að taka saman það sem hæst bar. Morgunblaðið gerði einmitt það, en einn af kvikmyndagagnrýnendum blaðsins, Helgi Snær Sigurðsson, valdi tíu – og nokkrar til viðbótar – af þeim bestu sem frumsýndar voru hér á landi á árinu og gagnrýndar voru í blaðinu.

Helgi raðar þeim þó ekki í röð frá einum upp í tíu, en myndirnar eru hér fyrir neðan, með þeim tilvitnunum sem fylgdu í greininni, og þeim stjörnum sem gefnar voru, á skalanum 0 – 5. Athygli vekur að meirihluti myndanna er evrópskur, en þó má sjá þarna A Star is Born meðal þeirra bestu, auk þess sem Marvel myndin Black Panther er nefnd auk Mission Impossible: Fallout ofl. góðra mynda. Hægt er að smella á nafn hverrar myndar til að lesa meira og skoða stiklur:

Kona fer í stríð eftir Benedikt Erlingsson. 5 stjörnur.

„Kvikmyndatakan er frábær, handritið er svakalega vandað og tónlistin er dásamleg, allt við kvikmyndina er í raun til fyrirmyndar.“ BH

Roma eftir Alfonso Cuarón. 5 stjörnur.

„… höfundur einsetur sér að gera klassíska lista-stórmynd. Hún er uppfull af milljón-dollara mómentum sem fá áhorfendur til að grípa andann á lofti.“ BH

A Star is Born eftir Bradley Cooper. 4,5 stjörnur.

„… falleg, skemmtileg, sorgleg og dramatísk og þó að hér sé auðvitað sama gamla sagan á ferðinni, bókstaflega, er það saga sem á alltaf erindi við áhorfendur.“ HSS

Loveless eftir Andrey Zvyagintsev. 4,5 stjörnur.

„Straumurinn er þungur og drunginn alltumlykjandi, magnaður upp af listilegri kvikmyndatöku […] útsýni út um regnvotan glugga segir meira en þúsund orð.“ HSS

Dauði Stalíns eftir Armando Iannucci. 4,5 stjörnur.

„… hin fínasta gamanmynd, sér í lagi fyrir þá sem hafa gaman af svörtum húmor eða fólk sem hefur áhuga á sögu Sovétríkjanna og 20. aldarinnar.“ SGS

Útey 22. júlí eftir Erik Poppe. 4 stjörnur. 

„… sterk áminning um þann hrylling, sem hryðjuverkamenn á valdi haturs og öfga hverju nafni sem þær nefnast geta látið af sér leiða.“ KB

Den skyldige  eftir  Gustav Möller.  4 stjörnur. 

„… handritshöfundar afhjúpa sannleikann í mátulegum skömmtum og beina athygli áhorfandans listilega frá honum þegar þörf er á.“ HSS

A Gentle Creature eftir Sergey Loznitsa. 4,5 stjörnur.

„Kvikmyndatakan er stórkostleg, í orðsins fyllstu merkingu, endurtekið lá við að ég gripi andann á lofti, ég var svo hrifin.“ BH

Mæri eftir Ali Abbasi. 4 stjörnur.

„… spurningin um hver Vore og Tina séu og hvað verði um þau heldur manni föngnum frá upphafi til enda.“ HSS

Cold War eftir Pawel Pawlikowski. 4 stjörnur.

„Frá fyrstu mínútu er ljóst að mikil bíóveisla er framundan, myndin er tekin í svarthvítu og undurfalleg á að
líta.“ HSS

Í samantektinni eru einnig nefndar eftirfarandi kvikmyndir, sem komust á blað sem bestu myndir ársins:
The Post, Styx, Suspiria, Mission: Impossible –Fallout, Lof mér að falla, Andið eðlilega, Black Panther, og
Happy End. 

Gagnrýnendur Morgunblaðsins sem skammstafaðir eru hér að ofan eru HSS: Helgi Snær Sigurðsson, BH: Brynja Hjálmsdóttir, SGS: Stefán Gunnar Stefánsson, KB: Karl Blöndal.

Hér má hlusta á hlaðvarp kvikmyndir.is með Helga Snæ þar sem farið er um víðan völl í spjalli um það sem hæst bar á árinu 2018.