Samræði við Lúsífer

Framleiðslufyrirtækið Artsploitation Films hefur gefið út glænýtt plakat og stiklu fyrir nýjustu mynd sína, argentísku hrollvekjuna Luciferina, en myndin vann verðlaun nýlega fyrir besta samræðis-særingaratriðið á Cinepocalypse kvikmyndahátíðinni.

Leikstjóri myndarinnar er Gonzalo Calzada (Resurrection, The Clairvoyant’s Prayer) og fjallar um unga nunnu sem þarf að berjast við lúsífer sjálfan, í iðrum helvítis.

Söguþráðurinn er eftirfarandi: Natalía er 19 ára gömul ungnunna, og snýr aftur á heimaslóðir, hikandi þó, til að kveðja föður sinn sem er við dauðans dyr. Móðir hennar er nýdáin einnig.  En þegar hún hittir systur sína og vini, þá ákveða þau að skella sér í ferðalag inn í frumskóginn og leita þar að dularfullri plöntu.

Ferðin, sem átti að vera áhugaverð og skemmtileg, reynist auðvitað þvert á móti hið gagnstæða, og þau sigla inn í heim þar sem menn framkvæma svartagaldur, og dauði og samræði með djöflinum á sér stað meðal annars.

Luciferina kemur út á Blu-ray og DVD 20. nóvember úti í heimi, og vonandi ratar hún hingað á VOD einn daginn. Vonandi þó ekki um Jólin…