Stærsti hákarl allra tíma er mættur – Fyrsta stikla úr The Meg

Fyrsta stiklan fyrir ofurhákarlatryllinn The Meg, með slagsmálaharðjaxlinum Jason Statham í aðalhlutverki, er komin út, en auk hans leikur Ólafur Darri Ólafsson hlutverk í myndinni.

Hákarlinn sem er í miðju frásagnarinnar er forsögulegur og dó út fyrir um tveimur milljónum ára, en hefur nú fundist undan ströndum Kína. Myndin er byggð á bók Steve Alten frá árinu 1997, The Meg: A Novel of Deep Terror.

Ólafur Darri Ólafsson fer með hlutverk The Wall í myndinni.

Stiklan hefst með mynd af lítilli stúlku að leika sér með kúlu í einhversskonar neðanjarðarrannsóknarstöð, þegar skepnan birtist skyndilega, kemur að glugganum, opnar risastóran skoltinn og bítur í glerið. Síðar segir einn af vísindamönnunum að hér gæti verið á ferðinni stærsti hákarl sem nokkurn tímann hefur verið til á Jörðinni. Statham leikur vísindamann sem bregður sér nú í hlutverk hákarlaveiðimanns.

Rainn Wilson úr The Office er einnig þarna sem hluti af vísindamannateyminu, en hann kemur með ýmis góð ráð, eins og til dæmis að í staðinn fyrir að drepa kvikindið, að festa á það staðsetningarbúnað.

Ruby Rose, Li Bingbing, Cliff Curtis, Winston Chao, Robert Taylor og Jessica McNamee koma þarna einnig við sögu. John Turteltaub leikstýrði.

The Meg kemur í bíó hér á Íslandi 10. ágúst nk.

Sjáðu stikluna hér fyrir neðan og plakatið þar fyrir neðan: