Jerry Van Dyke horfinn á vit feðra sinna

Bandaríski leikarinn og grínistinn Jerry Van Dyke lést 5. janúar síðastliðinn 86 ára að aldri.

Jerry var yngri bróðir Dick Van Dyke og hafði, meira og minna, hvílt í skugga velgengni hans en Dick náði hreint ótrúlegum vinsældum með samefndum grínþætti sem gekk í fimm ár og hlutverkum í myndum eins og „Mary Poppins“ (1964) og „Chitty Chitty Bang Bang“ (1968).

Jerry gekk hins vegar verr að festa sig í sessi í heimi kvikmynda- og sjónvarpsiðnaðarins og nýtur hann þess vafasama heiðurs að hafa leikið í sjónvarpsþætti sem iðulega er nefndur einn sá versti allra tíma; „My Mother the Car“ (1965-1966). Þrjátíu þættir voru framleiddir og snérust þeir um raunir piparsveins og greindu frá samskiptum hans við látna móður sína sem birtist honum í formi bíls og hélt hún áfram að skipta sér af einkalífi sonar síns.

Jerry leið þó engan skort og sá ágætlega fyrir sér með gestahlutverkum í þáttum og sjónvarpsmyndum ásamt því að troða reglulega upp sem grínisti víða. Allt breyttist það þó þegar hann landaði stóru hlutverki í grínþáttunum „Coach“ (1989-1997). Þar lék hann hluverk Luthers Van Damme, aðstoðarþjálfara Haydens Fox (Craig T. Nelson) sem þjálfaði menntaskólaliðið Minnesota State Screaming Eagles.  Alls voru framleiddir 200 þættir eða níu seríur. Kjarnann skipuðu þeir Nelson og Van Dyke ásamt unnustu Haydens, Christine Armstrong (Shelley Fabares) og annars meðlims þjálfarateymisins Michael „Dauber“ Dybinski (Bill Fagerbakke).

Leikarahópurinn í „Coach“

„Coach“ naut töluverðra vinsælda en þó var talið að þættirnir hafi notið góðs af því að vera sýndir beint á eftir hinum gríðarvinsæla „Roseanne“ (1988-1997) með þeim Roseanne Barr og John Goodman. Gagnrýnendur voru þokkalega sáttir og „Coach“ sankaði að sér þó nokkrum Golden Globe og Emmy tilnefningum (Nelson vann t.a.m. Emmy verðlaun árið 1992) og Van Dyke var tilnefndur fjórum sinnum til Emmy verðlauna án þess þó nokkurn tímann að vinna.

Van Dyke gat loksins hrist af sér skugga bróður síns og var hreint ómissandi partur af sjarmanum sem „Coach“ bjó yfir. Luther var mjög eftirminnileg persóna og mörg miður góð lýsingarorð hentuðu honum vel; frekur, barnalegur, ósjálfstæður, eiginhagsmunaseggur, taugasjúklingur og svo mætti áfram telja. En eins og góðum karakterum sæmir þá var hann líka sannur vinur vina sinna og var með hjartað á réttum stað þegar uppi stóð…svona oftast. Van Dyke kom Luther vel til skila í níu ár og óhætt að segja að hápunktinum á ferlinum var náð.

Ásamt bróður sínum Dick Van Dyke

Eftir að „Coach“ lauk göngu sinni tók það sama við og Van Dyke skaut upp kollinum hér og þar sem gestaleikari og síðasta hlutverk hans var í tuttugasta og fyrsta þætti í sjöttu seríu af „The Middle“ (2009-?) en þar einmitt lék hann ásamt bróður sínum.