“Mig langar ekki að gera rándýra ofurhetjumynd”

Bandaríska leikkonan og leikstjórinn Jodie Foster fór í viðtal hjá tímaritinu Radio Times á dögunum þar sem hún talaði m.a. um stóru kvikmyndadverin í Hollywood og hvernig þau væru að eyðileggja framtíð kvikmyndaiðnaðarins í borginni.

“Að fara í kvikmyndahús er orðið svipað og að fara í skemmtigarð,” sagði leikkonan meðal annars um iðnaðinn nú til dags. “Kvikmyndaverin gera einungis orðið myndir sem höfða til fjöldans og til ákveðinna fjárfesta,” sagði Foster og talaði einnig um að það skorti allt innihald í stóru dýru kvikmyndirnar. “Þessi þróun eyðileggur alveg hvernig við horfum á kvikmyndir. Mig langar ekki að gera rándýra ofurhetjumynd“.

Foster leikstýrði á dögunum einum þætti í fjórðu seríu Black Mirror og sagði að það hefði verið frábær upplifun að vinna fyrir breskt framleiðslufyrirtæki utan Hollywood. Þættirnir eru framleiddir í Englandi og gerðir fyrir streymiveituna Netflix. “Af öllum þeim verkum sem ég hef unnið að sem leikstjóri þá hef ég aldrei átt eins gott samband við framleiðenda eins og í þetta skipti“. Sagði Foster um samstarf sitt við Charlie Brooker, sem er aðalframleiðandi þáttanna.

Fjórða sería Black Mirror var frumsýnd á Netflix í gær og er hægt að nálgast alla þættina þar. Þátturinn sem Foster leikstýrði er númer tvö í röðinni og nefnist Arkangel.