Pólskur Jack Black á Netflix

Gamanmyndaleikarinn Jack Black fer með aðalhlutverkið í The Polka King sem verður sýnd almenningi á streymiveitunni Netflix þann 12. janúar næstkomandi. Athygli vekur að myndin hefur ekki farið í almennar sýningar síðan hún var frumsýnd á Sundance-kvikmyndahátíðinni fyrir tæpu ári síðan og fékk þar fína dóma.

Myndin er byggð á heimildarmyndinni The Man Who Would Be Polka King eftir Joshua Brown og John Mikulak. Í myndinni var fjallað um pólska skemmtikraftinn Jan Lewan sem dró aðdáendur sína á asnaeyrum og svindlaði á þeim fjárhagslega með svokölluðu Ponzi-svindli.

Black fer með hlutverk Lewan og sýnir hann á sér allar sínar bestu hliðar í nýrri stiklu úr myndinni. Þar má sjá hann syngja, dansa og beita öllum sínum sjarma til að blekkja fólk.

Með önnur hlutverk í myndinni fara m.a. Jenny Slate, Jason Schwartzman, Jacki Weaver, J.B. Smoove og Vanessa Bayer.

Hér að neðan má sjá nýja stiklu úr myndinni.