Fyrsta ljósmyndin úr Aquaman

Fyrsta ljósmyndin úr Aquaman með Jason Momoa í titilhlutverkinu var opinberuð af tímaritinu Entertainment Weekly fyrir skömmu. Þar má sjá grjótharðan Arthur Curry, með öðrum orðum Aquaman, umvafinn gufu í dimmu stjórnstöðvarherbergi. Athygli vekur hversu myrkur tónn er á myndinni og jafnvel öðruvísi yfirbragð en það sem við höfum áður séð í myndum fyrir Justice League.

Leikstjóri myndarinnar, James Wan, segir að myndin fari aðrar leiðir með persónuna heldur en áður hefur verið gert. ”Þetta mun líta allt öðruvísi út,” sagði Wan við Entertainment Weekly. Leikstjórinn er þekktur fyrir að gera hrollvekjur á borð The Conjuring og Saw. Mörgum brá því í brún þegar hann var ráðinn sem leikstjóri ofurhetjumyndarinnar.

Ljósmyndina má sjá hér að neðan.

Myndin fer mun dýpra í sögu Aquaman og fáum við að sjá þegar hann var ungur drengur fram að því þegar hann varð loks konungur hafsins. ”Justice League var aðeins ein helgi í lífi Arthur Curry, þetta er mun stærra dæmi.” sagði Momoa í viðtali við tímaritið.

Sagan hefst á því að við sjáum hvernig foreldrar hans Curry hittust og hvað varð um þau. Faðir hans hét Tom Curry og var vitavörður en móðir hans hét Atlanna og var eitt sinn drottning sjávarborgarinnar Atlantis. Eftir það fylgist myndin með honum þegar hann er að uppgvöta krafta sína á barnsaldri. Fram að miðju myndarinnar er farið í það hvernig Curry óx úr grasi og varð á endanum konungur hafsins.

Aquaman verður frumsýnd þann 21. desember, 2018.