Daniel dregur úr áhættuleik í næstu Bond mynd

Breski James Bond leikarinn Daniel Craig hefur samþykkt að draga úr þátttöku sinni í hættulegum áhættuatriðum í næstu tveimur Bond myndum.

Leikarinn, sem er 49 ára gamall, sagði nýlega frá því að hann myndi mæta aftur til leiks í James Bond mynd númer 25, eftir miklar getgátur um hver myndi taka við af honum í hlutverkinu. Hann mun þó fara að ráðum eiginkonu sinnar Rachel Weisz, sem hefur beðið hann um að fara varlega í þetta skiptið.

Heimildarmaður breska blaðsins The Mirror segir: „Þetta hefur verið stórt þrætuepli. Rachel vill ekki horfa upp á hann þjást aftur. Hann er enn að jafna sig eftir síðustu mynd.

Hver áverki á sér sína sögu og hún veit af því. Þau hafa komist að samkomulagi um hve langt hann muni ganga í áhættuatriðunum, og ætlar að láta þau hættulegustu eiga sig í þetta sinn. Þetta er forvarnaratriði.“

Daniel hefur áður viðurkennt að hann hafi þurft að leggjast undir hnífinn vegna Bond myndanna.

Hann sagði: „Ég laskaði á mér hnéð, og þurfti að fara í uppskurð, ég þurfti að láta gera við öxlina á mér, skorið var í hitt hnéð á mér og annar þumalputtinn meiddist.“

Rachel, sem er 47 ára, hefur sagt að eiginmaðurinn sé mjög ólíkur persónunni sem hann leikur í James Bond myndunum. Hún segir: „Ég er ekki gift James Bond. Hann kvænist ekki. Ég hef horft á hann sofa hjá stúlkum án þess að kvænast þeim. Daniel er mjög góður leikari og hæfileikaríkur. Við lifum bara venjulegu lífi.“