Hörku ljóska í heilalausri skemmtun

Í stuttu máli er „Atomic Blonde“ góð heilalaus skemmtun og Theron er flottur ofurnjósnari.

Árið er 1989 og sögusviðið er Berlín rétt áður en múrinn fellur. Rússneski njósnarinn Bakhtin (Jóhannes Haukur) stelur verðmætu úri sem er troðfullt af viðkvæmum upplýsingum sem ljóstra upp raunverulegum nöfnum njósnara um allan heim. MI6 njósnarinn Lorraine Broughton (Charlize Theron) er send á svæðið til að hafa upp á Bakhtin og koma höndum yfir upplýsingarnar og við komuna lendir hún strax í háska og til átaka kemur. Fljótlega hittir hún tengilið sinn, njósnarann David Percival (James McAvoy), sem hefur lengi dvalist í borginni og þekkir sig vel þar. David er þegar með ráðabrugg í gangi þar sem hann reynir að smygla austur-þýskum leynilögreglumanni fram hjá múrnum en hann hefur lagt allar upplýsingarnar sem eru í úrinu á minnið og er því mjög mikilvægur. Þar sem vitað var hver Lorraine var við komuna er greinilegt að einhver leikur tveimur skjöldum og fer hún varlega í að treysta tengilið sínum og öðrum sem á vegi hennar verða.

Frábær tónlist, magnaðar bardaga- og hasarsenur, flottur sjónrænn stíll sem sýnir Berlín ýmist í köldum vetrartónum að degi til og neon ljósum þegar dimmir og erótísk sena milli Theron og hinnar undurfögru Sofia Boutella (The Mummy) er það sem stendur upp úr í „Atomic Blonde“. Lorraine Broughton er eins konar kvenútgáfa af Jason Bourne; ofursvalur njósnari sem getur tuskað alla til en gerir það í flottum fötum og er mikið augnakonfekt í þokkabót.

Ekkert af þessu skilur mikið eftir sig og flokka má þessa í hinn oftroðna en góða og gilda flokk; heilalaus skemmtun. Theron tekur sig frábærlega út í hlutverki Lorraine hvort sem um er að ræða harðar átakasenur eða í þau skipti sem myndin hægir aðeins á sér. Slái „Atomic Blonde“ í gegn í miðasölu er ekki óhugsandi að Theron endurtaki leikinn og myndasería um ljóskunjósnarann væri hið besta mál. McAvoy og Boutella er fín í sínum rullum sem og gömlu kempurnar Toby Jones og John Goodman en þeir leika yfirmenn í leyniþjónustunni sem standa fyrir yfirheyrslu á Lorraine þar sem hún rekur atburðarrásina. Svo er ekki annað en hægt að minnast á Jóhannes Hauk en hlutverk hans er því miður ekki langt og stendur hann sig með stakri prýði sem rússneski njósnarinn sem hrindir allri atburðarrásinni af stað.

Handritið er að mestu fínt og lumar á nokkrum óvæntum augnablikum en verður helst til of flókið í restina og margt kemur í ljós á skömmum tíma. Sjónræni þátturinn skiptir meira máli og hasarinn er svaka flottur og vel framreiddur. Ofbeldið er ýmist mjög stíliserað og frekar „cool“ (hægfara skotbardagar með heilaslettum á veggjum osfrv.) en einnig ansi harðneskjulegt og nær óþægilega raunverulegt en eitt magnað atriði þar sem Theron tekst á við nokkra vonda gaura í einu er gríðarlega vel gert og „brútal“. Svo er allt í góðu að minnast sérstaklega á laskað útlit Theron eftir átakasenuna en sárin og marblettirnir eru mjög áberandi og fylgja henni allt til loka myndarinnar. Smá skammtur af raunverulega útlítandi áverkum slagsmála skemmir ekki fyrir.

Popp- og rokktónlist níunda áratugarins kemur mikið við sögu til að rífa upp stemninguna og valið var mjög að skapi þessa gagnrýnanda; sérlega sérstakt var að sjá Theron lumbra illilega á stæltum lögregluþjónum undir fögrum tónum „Father Figure“ með George Michael.

Á heildina litið er „Atomic Blonde“ vel heppnuð skemmtun og Lorraine Broughton, í túlkun Theron, er góð viðbót í hasarmyndaflóruna þar sem karlpeningurinn hefur að mestu verið sýnilegur.