Riz ræðir Venom hlutverk

Ofurhetjumyndin Venom, sem Sony framleiðslufyrirtækið er með í undirbúningi, hefur nú þegar fengið Dunkirk leikarann Tom Hardy í titilhlutverkið. Nú er komið að því að ráða fleiri leikara, og heimildir Empire kvikmyndaritsins herma að Night Of leikarinn Riz Ahmed eigi í viðræðum um að slást í hópinn.

Sony vill ekki segja hvaða hlutverk er um að ræða, en Variety kvikmyndaritið hefur haft spurnir af því að um sé að ræða ónefnda vinsæla Marvel Comics teiknimyndasöguhetju.

Leikstjóri verður Ruben Fleischer. Hardy leikur sem fyrr sagði ofurhetjuna Venom, eða Eddie Brock, sem blandast saman við veru utan úr geimnum og fær ofurkrafta, og verður þorpari eða einskonar andhetja.

Fyrsti hýsill Venom var Köngulóarmaðurinn, eins og kom fram í kvikmyndinni Spider-Man 3 frá árinu 2007. Köngulóarmaðurinn náði að slíta sig frá fyrirbærinu, og næsti hýsill var fyrrnefndur Eddie Brock.

Stefnt er að frumsýningu kvikmyndarinnar 5. október 2018, eða um svipað leyti og ofurhetjumyndin Aquaman verður frumsýnd.

Ahmed sást síðast í City of Tiny Lights, og er nú sem stendur að leika í vestranum The Sisters Brothers.