Verður ung Streep í Mamma Mia 2

Baby Driver leikkonan Lily James hefur verið ráðin í hlutverk í framhaldi hinnar geysivinsælu „ABBA“ kvikmyndar Mamma Mia frá árinu 2008, Mamma Mia: Here We Go Again.

Meryl Streep, Colin Firth og Amanda Seyfried snúa öll aftur í sömu hlutverkum og áður, og Ol Parker skrifar handrit og leikstýrir. James mun leika hlutverk Donnu á yngri árum, en Meryl Streep lék Donnu í fyrstu myndinni.

Myndin mun flakka aðeins fram og til baka í tíma, til að sýna hvernig sambönd þróuðust í fortíðinni.

Benny Andersson og Björn Ulvaeus úr ABBA taka einnig þátt í myndinni sem framleiðendur og útvega lög og texta á ný.

James hefur átt annríkt undanfarið við kynningar á Baby Driver, sem er sýnd hér á landi um þessar mundir og hefur fengið góðar viðtökur gagnrýnenda og áhorfenda.

James sló upphaflega í gegn í sjónvarpsþáttunum Downton Abbey, og lék einnig í Disneymyndinni um Öskubusku. Þá leikur hún í ævisögulegri mynd um ævi breska forsætisráðherrans Winston Churchill, Darkest Hour, sem frumsýnd verður í haust.

Mamma Mia: Here We Go Again kemur í bíó eftir eitt ár, þann 20. júlí 2018.