Aquaman verður jólamynd 2018

Framleiðslufyrirtækið Warner Bros hefur frestað frumsýningu DC Comics ofurhetjumyndarinnar Aquaman, sem James Wan leikstýrir, um tvo mánuði.

Upprunalega stóð til að frumsýna myndina 5. október 2018, en nýr frumsýningardagur hefur verið ákveðinn 21. desember sama ár.

Þennan sama dag átti að frumsýna aðra mynd sem beðið er eftir með mikilli eftirvæntingu, Avatar 2 , en James Cameron leikstjóri þeirrar myndar, sagði í síðustu viku að sú dagsetning myndi ekki standast.

Sumir greinendur í bíóbransanum höfðu spáð því að Disneyfyrirtækið myndi færa Han Solo Star Wars myndina á þennan sama dag, en aðrir telja að allt önnur dagsetning sé í pípunum fyrir þá mynd.

Aðrir frumsýningardagar færast til

Warner Bros er enn með eina ónefnda DC comics kvikmynd áætlaða til frumsýningar 27. júlí 2018, en flestir höfðu spáð því að það yrði Batmanmynd Ben Affleck, eða The Flash, í leikstjórn Ezra Miller.

Affleck hefur síðan þá gengið úr skaftinu sem leikstjóri, og Matt Reeves er sagður hafa tekið við keflinu, og byrjað frá byrjun á því að endurgera handritið. Þetta þýðir að myndin er ekki væntanleg á hvíta tjaldið fyrr en í fyrsta lagi árið 2019.  Áætlað er að frumsýna The Flash  árið 2020.

Warner Bros hefur einnig tilkynnt að kvikmyndin Horse Soldiers muni koma í bíó 19. janúar 2018, og Bastards, með Owen Wilson og Ed Helms, sem átti að koma út núna í vetur, verði frumsýnd um næstu jól, eða 22. desember 2017.