La La Landið heillar áfram – Hjartasteinn í 23 milljónir

Rómantíska dans – og söngvamyndin La La Land sem tilnefnd er til 14 Óskarsverðlauna og er með þeim Ryan Gosling og Emma Stone í aðalhlutverkum, er vinsælasta myndin á Íslandi aðra vikuna í röð.

Myndin fékk á dögunum fullt hús stjarna í Morgunblaðinu, en gagnrýnandi blaðsins, Helgi Snær Sigurðsson, sagði um myndina; „Sagan sem rakin er í La La Land er einföld og kunnugleg. Mia og Sebastian verða ástfangin, tveir ungir listamenn sem eiga sér stóra drauma sem virðast ekki ætla að rætast. Sebastian gerist píanóleikari í vinsælli hljómsveit til að eiga fyrir salti í grautinn og er á sífelldu flakki milli borga og Mia semur og flytur einleik í litlu leikhúsi. Hversdagsleikinn tekur við, líf þeirra ekki lengur sá dans á rósum sem það var áður. Ákveðin vatnaskil verða dag einn í lífi þeirra og undir lokin (í einum tilkomumesta lokakafla sem ég hef séð í háa herrans tíð í kvikmynd) er þeirri spurningu varpað fram hvers virði draumarnir séu.“

Helgi klikkir svo út með því að segja að hann hafi ekkert út á myndina að setja: „Kvikmyndin ber vitni um ósvikna ástríðu fyrir kvikmyndagerð, hún er ákaflega heillandi og eflaust munu margir bíógestir fara dansandi og syngjandi heim og raula „City of Stars“ fyrir munni sér í marga daga.“

Önnur vinsælasta myndin á íslenska bíóaðsóknarlistanum er mynd af annarri tegund, hrollvekjan Rings, ný á lista. Í þriðja sæti er svo íslenska myndin Hjartasteinn, en samanlagðar tekjur myndarinnar frá frumsýningu hér á landi eru nú komnar yfir 23 milljónir króna.

Tvær aðrar nýjar myndir eru á listanum að þessu sinni; hrollvekjan The Bye Bye Man og Jim Jarmusch myndin Paterson. 

Sjáðu aðsóknarlistann í heild sinni hér fyrir neðan: