Hrollvekja frá grínista – Fyrsta stikla

Fyrsta stiklan fyrir hrollvekjuna Get Out, eða „Drífðu þig burt“ í lauslegri íslenskri þýðingu, er komin út, en myndin er frumraun gamanleikarans Jordan Peele í leikstjórastólnum. Peele er annar helmingur gríndúósins Key & Peele, sem margir ættu að kannast við úr myndinni Keanu, sem sýnd var hér á Íslandi fyrr á árinu.

get out

Þó að ljósmyndin hér fyrir ofan líti sakleysilega út þá er hér á ferðinni taugatrekkjandi hrollur ef eitthvað er að marka stikluna.

Með helstu hlutverk fara Daniel Kaluuya (Sicario), sem Chris, og Allison Williams, sem Rose (Girls). Þau leika par sem fer í ferðalag út fyrir borgina til að hitta foreldra Rose í fyrsta skipti, sem leikin eru af þeim Catherine Keener og Bradley Whitford.

Chris spyr í upphafi stiklunnar hvort að Rose hafi sagt þeim að hann sé þeldökkur, en Rose telur að það verði ekki vandamál. Þegar á staðinn er komið hegðar fjölskyldan sér einkennilega, og allskonar furðulegir atburðir eiga sér stað.

Myndin er væntanleg á hvíta tjaldið í Bandaríkjunum 24. október nk.

Kíktu á stikluna hér fyrir neðan: