Wonder Woman leikstjóri svarar fyrir sig

Leikstjóri ofurhetjumyndarinnar Wonder Woman, Patty Jenkins, svaraði gagnrýni á myndina fullum hálsi nú um helgina, en ónefndur aðili, sem líklega er fyrrum starfsmaður kvikmyndarisans Warner Bros., skrifaði opið bréf og réðst á fyrirtækið fyrir að senda frá sér ofurhetjumyndir sem væru undir meðallagi að gæðum, allt frá Man of Steel árið 2013 til ofursmellsins Suicide Squad, sem nú er í bíó. Í bréfinu var einnig ýjað að því að Wonder Woman yrði hrærigrautur, í sama gæðaflokki og talað var um að hinar myndirnar væru í.

wonder-woman

„Kannski hefði Wonder Woman ekki átt að verða svona mikill hrærigrautur,“ segir í bréfinu. „Ekki fela ykkur á bakvið hina frábæru stiklu. Innanbúðarfólk hefur nú þegar staðfest að myndin verði enn einn skellurinn.“

Þó að höfundur bréfsins sé óþekktur, þá var Jenkins allt annað en hress með gagnrýnina. Hún sendi frá sér nokkur svör á Twitter á föstudaginn til að svara bréfinu.

Hún sagði m.a. „Þetta er einhver tilbúinn þvættingur hér á ferðinni,“ tísti Jenkins. „Komdu með heimildir fyrir þessu.“

Svo hélt hún áfram: „Þú getur það ekki af því að þetta algjört rugl. Ekki trúa þessu blaðri fólk. Þetta er einhver að reyna að afvegaleiða ykkur.“

Þó að myndirnar sem nefndar eru í bréfinu hafi fengið misjafnar viðtökur gagnrýnenda, þá náðu þær allar að slá í gegn í bíó um heim allan. Suicide Squad mun að öllum líkindum halda toppsæti bíóaðsóknarlistans í Bandaríkjunum, og hér á Íslandi, aðra vikuna í röð.

Wonder Woman kemur í bíó hér á Íslandi 2. júní 2017.