Gibson vísað úr Glæpahneigð

The Wrap vefsíðan greinir frá því að Glæpahneigðar ( Criminal Minds ) leikaranum Thomas Gibson hafi verið vísað af tökustað sjónvarpsþáttanna eftir að hann sparkaði í fót handritshöfundar.

thomas gibson

Málið var tekið fyrir hjá CBS sjónvarpsstöðinni eftir að handritshöfundurinn kvartaði við umboðsmann sinn, samkvæmt frétt TMZ. Gibson, sem var einnig að leikstýra þættinum, hefur ekki sést á tökustað í tvær vikur – en óvíst er hve lengi brottreksturinn gildir.

Gibson sjálfur segist hafa sparkað í höfundinn í hefndarskyni eftir að höfundurinn gerðist árásargjarn, segir slúðursíðan TMZ.

„Það varð listrænn ágreiningur á tökustað og ósætti,“ sagði leikarinn við Harvey Levin & Co..  „Ég sé eftir þessu. Við viljum öll vinna saman sem teymi til að gera sem besta sjónvarpsþætti. Það höfum við alltaf gert og viljum gera áfram.“

Talsmaður Gibson og CBS hafa ekki svarað eftirgrennslan The Wrap um málið.